

Sá sem lést í bílslysi á Biskupstungnabraut í gær, skammt frá Þrastarlundi, er Guðmundur Oddur Magnússon listamaður og prófessor emeritus í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Guðmundur Oddur þekktur undir listamannsnafni sínu Goddur en hann var einn helsti sérfæðingur Íslendinga á sviði myndmáls og hönnunar og var iðulega kallaður til þegar þurfti að fræða almenning, í fjölmiðlum, nánar um þessi sérsvið hans.
Systir Godds, Ásthildur greinir frá andláti bróður síns, í færslu á samfélagsmiðlum.
Goddur var sjötugur að aldri fæddur á Akureyri 5. júní 1955. Fram kemur í umfjöllun RÚV að hann hafi lært myndlist í Reykjavík og síðar grafíska hönnun í Kanada á árunum 1986-1989. Goddur hafi síðan kennt grafíska hönnun við myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar við Listaháskóla Íslands.
Goddur hafi síðan komið að stofnun hönnunardeildar við Listaháskóla Íslands og verið deildarstjóri í grafískri hönnun frá upphafi og svo ráðinn prófessor í grafískri hönnun árið 2002 en einnig starfað meðfram því sjálfstætt sem hönnuður meðfram kennslu.
Goddur stundaði einnig af kappi rannsóknir á hönnun og myndlist og birti fjölda fræðigreina í tímaritum og bókum, skipulagði listsýningar og hélt fyrirlestra á fræðasviði sínu. Eftir að hann hætti kennslu vegna aldurs hélt hann áfram að halda fyrirlestra og stunda sínar rannsóknir en í umfjöllun RÚV er haft eftir honum að hann liti á sig fyrst og fremst sem kennara.
Goddur virtist nánast vera óþrjótandi þekkingarbrunnur þegar kom að myndlist og hönnun og hann hafði gott lag á því að koma sinni þekkingu til skila á fróðlegan og greinargóðan hátt. Ljóst er að sjónarsviptir verður að Goddi en DV ræddi síðast við hann árið 2020.
Goddur yfirheyrður – Óttast valdbeitingu möppudýra og baunateljara – Mesta afrekið að verða edrú