

Slysið varð með þeim hætti að lest sem var á leið til Madrídar fór út af sporinu og endaði á járnbrautarteinum fyrir umferð úr gagnstæðri átt. Lest sem kom aðvífandi á mikilli ferð náði ekki að stöðva í tæka tíð og varð harður árekstur. Slysið varð skammt frá borginni Córdóba.
Í frétt BBC kemur fram að alls hafi um 400 farþegar og starfsmenn verið um borð í lestunum tveimur. Að minnsta kosti 73 voru fluttir á sjúkrahús, þar af 24 alvarlega slasaðir, þar á meðal fjögur börn, samkvæmt neyðarþjónustu Andalúsíu.
Samgönguráðherra Spánar, Óscar Puente, lýsti atvikinu sem afar undarlegu þegar hann ræddi við blaðamenn í Madríd.
„Allir járnbrautarsérfræðingar sem stjórnvöld hafa rætt við eru afar undrandi yfir slysinu,“ sagði Puente en það sem vekur mesta athygli er að lestin sem fór út af sporinu var á beinum kafla og ekki í beygju þegar slysið varð. Sú lest var á leið frá Málaga til Madrídar en hin var á leið frá Madríd til Huelva. Flestir hinna látnu voru í fremstu vögnum síðarnefndu lestarinnar.
Rannsókn á tildrögum slyssins er á frumstigi en samgönguráðherra Spánar segist eiga von á því að hún geti tekið langan tíma miðað við aðstæður á vettvangi.