

Í dag var tilkynnt að Finnur Bjarnason hafi verið skipaður óperustjóri, sá fyrsti eftir að Alþingi samþykkti ný lög um stofnun Óperu undir hatti Þjóðleikhússins. Það var Jóhann Páll Jóhannsson, settur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sem skipaði Finn í starfið til fimm ára samkvæmt tillögu hæfnisnefndar. Kemur þetta fram á vef Þjóðleikhússins.
„Við óskum Finni innilega til hamingju með skipunina og bindum miklar vonir við hann í starfi fyrsta óperustjóra hinnar nýju óperu. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan og við hlökkum til að byggja óperuna upp með nýjum óperustjóra og samstarfsaðilum víðsvegar í menningarlífinu,“ segir Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.
Í tilkynningunni kemur fram að langþráður draumur óperuunnenda varð að veruleika 5. júlí 2025, þegar Alþingi samþykkti frumvarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, um breytingar á lögum um sviðslistir, sem fólu í sér stofnun Óperu undir hatti Þjóðleikhússins. Óperan mun sinna óperulistinni á breiðum grunni, með sýningum víðsvegar um landið, með aðstöðu í Hörpu og einnig í Þjóðleikhúsinu. Óperan er hluti af Þjóðleikhúsinu og heyrir óperustjóri undir þjóðleikhússtjóra í skipuriti stofnunarinnar, jafnframt því sem lögð verður áhersla á víðtækt samráð við ólíka aðila í menningarlífinu.
Finnur mun hefja störf 15. janúar og þá hefst vinna við að móta og byggja upp hina nýju óperu.
Finnur Bjarnason er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og tvö lokapróf á meistarastigi; Postgraduate Diploma í raddþjálfun og nám í óperuflutningi (Opera Course) frá Guildhall School of Music & Drama. Hann stundaði framhaldsnám við National Opera Studio í London og hefur lokið burtfararprófi í söng frá Tónskóla Sigursveins. Finnur býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á vettvangi óperulistar, hefur verið fastráðinn við óperuhús í Englandi og Þýskalandi og sungið við óperuhús víða um heim. Í gegnum störf sín hefur hann öðlast dýrmæta innsýn í starfsemi óperuhúsa.