„Ofstopafull umræða í síðustu viku var ekki gagnleg fyrir íslenskt samfélag, hvorki þá hópa sem málið snertir beint né okkur hin. Hávær rifrildi og flokkadrættir um persónuleg mál fólks er hættuleg vegferð sem bæði særir fólk að ósekju og sogar athygli og orku frá öðrum mikilvægari viðfangsefnum sem steðja að samfélaginu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli helgarblaði Morgunblaðsins.
Hatrammar umræður hafa geisað í samfélaginu undanfarna daga í kjölfar Kastljósþáttar RÚV þar sem Þorbjörg Þorvaldsdóttir, verkefnastýra Samtakanna 78, og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, tókust á um málefni trans fólks.
Þórdís segir í grein sinni að við eigum ekki að gera persónuleg einkamálefni fólks að pólitísku viðfangsefni. Hún bendir á að í kosningabaráttu Trump hafi það verið strategísk ákvörðun að ráðast með áróðri að réttindum trans fólks til að sá í akur óánægju. Sú óánægja hafi kraumað í jarðvegi sem skapaður hafi verið að óþörfu:
„Á bak við ákvörðun um að verja tugum eða hundruðum milljóna dala í þetta málefni var vissan um að skammt fyrir neðan yfirborð boðlegrar umræðu í Bandaríkjunum kraumaði niðurbæld kergja hjá umtalsverðum hópi fólks í garð örlítils minnihluta. En það gerðist ekki heldur sjálfkrafa að alls konar fólk var farið að móta sér skoðanir á líffræðilegum eiginleikum ókunnugs fólks. Bæði stuðningsfólk réttinda hinsegin fólks og fordómapúkar höfðu um langa hríð hamast á sitthvorum endanum við að gera þessi einkamálefni fólks að pólitísku bitbeini. Þar með var kominn frjór farvegur til þess að vökva fræ fordóma og skilningsleysis í pólitískum tilgangi, sem virkaði.“
Þórdís veltir upp efasemdum um hvort hér sé um að ræða málefni sem ástæða sér til að hafa sterkar skoðanir á og segir í lok pistils síns:
„Stóra málið í þessu er kannski sá sannleikur að þegar öllu er á botninn hvolft gildir það um sum málefni að áður en maður ákveður að hafa á þeim sterka skoðun væri gagnlegt að spyrja sig tveggja einfaldra spurninga: „Kemur þetta mér við?“ og „Þarf ég að skipta mér af þessu?” Þegar málin snúast um persónulegustu mál annars fólks eru bæði svörin oftast „nei“.“