Þetta sagði Rubio í opinberri heimsókn sinni til Ekvador í vikunni, en tilefnið er myndband sem Donald Trump Bandaríkjaforseti birti í vikunni.
Á því sést þegar bandaríski herinn sendir flugskeyti á skútu sem var á leið til Bandaríkjanna og var full af fíkniefnum. Ellefu meintir fíkniefnasmyglarar fórust í aðgerðinni en skútan sem um ræðir var á leið frá Venesúela til Bandaríkjanna og er hún sögð hafa tilheyrt glæpasamtökunum Tren de Aragua.
Sjá einnig: Trump birti myndband af því þegar ellefu fíkniefnasmyglarar voru sprengdir í loft upp
Rubio gaf til kynna að fleiri slíkar sprengjuárásir yrðu gerðar og þá hugsanlega í samvinnu við önnur ríki. Í erindi sínu sagði hann einnig að tvö stærstu glæpagengi Ekvador, Los Lobos og Los Choneros, yrðu hér eftir flokkuð sem erlend hryðjuverkasamtök.
Þegar hann var spurður hvort sömu örlög gætu beðið smyglara frá bandalagsríkjum Bandaríkjanna, Ekvador og Mexíkó til dæmis, sagði hann að „bandalagsríki“ myndu hjálpa til við að bera kennsl á smyglarana. Bæði yfirvöld í Ekvador og Mexíkó hafa sagt að þau muni aðstoða við að bera kennsl á smyglara.
„Forsetinn hefur sagt að hann vilji heyja stríð gegn þess hópum þar sem þeir hafa háð stríð gegn okkur í 30 ár án þess að nokkur hafi brugðist við.“
Sprengjuárásin í vikunni vakti talsverða athygli enda fátítt að svo grimmilegum aðferðum sem beitt. Breska ríkisútvarpið ræddi við lögfræðinga sem sögðu að árásin gæti hafa brotið gegn alþjóðlegum mannréttinda- og hafréttarlögum.
Það er ekki að ástæðulausu að Bandaríkjamenn beina nú spjótum sínum að Ekvador.
Glæpatíðni og tíðni ofbeldis hefur vaxið þar mjög á síðustu árum þar sem glæpagengi berjast um yfirráð yfir mjög svo arðbærum flutningsleiðum fyrir kókaín. Talið er að um 70% af kókaíni heimsins fari í gegnum Ekvador frá nágrannaríkjum sem framleiða efnið, Kólumbíu og Perú þar á meðal, til markaða í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.