fbpx
Föstudagur 05.september 2025
Fréttir

„Að Snorri Másson vogi sér að kvarta yfir skoðanakúgun og þöggun í kjölfarið á því að hafa beinlínis reynt að þagga niður í mér með yfirgangi, er út í hött“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. september 2025 15:00

Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Snorri Másson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, samskipta- og kynningarstjóri hjá Samtökunum ´78, segir að sér hafi aldrei verið sýnd jafnmikil vanvirðinga sem þátttakanda í opinberri umræðu og á mánudag þegar hún mætti Snorra Mássyni, þingmanni Miðflokksins, í Kastljósi að ræða málefni hinsegin fólks. Þetta kemur fram í færslu Þorbjargar á Facebook en þar fer hún meðal annars yfir það sem hún hefði viljað sagt hafa, hefði hún komist að.

„Stór hluti af mínu starfi hjá Samtökunum ‘78 hefur verið að þjálfa fólk í því að svara fordómafullri umræðu með kærleika og trú á fólki. Markmiðið er skaðaminnkun: að fordómafull viðhorf, afmennskun og fyrirlitning nái ekki yfirhöndinni í samfélagsumræðunni. Annar hluti hefur verið að halda utan um tilkynningar um hatursglæpi og eiga samskipti við lögreglu um þær skráningar og öryggismál almennt. Ég hef einnig frá árinu 2018 tekið virkan þátt í (og um tíma leitt) réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi. Ég er sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks og þá sérstaklega í samhengi orðræðu og ofbeldis. Ég þekki vel birtingarmyndir og afleiðingar aukinna fordóma, er í samskiptum við þolendur, held utan um tölfræði, les skýrslur og rannsóknir og fylgist náið með þróun heimsmála,“ skrifar Þorbjörg.

„Aldrei verið sýnd jafn mikil vanvirðing“

Má greina að Þorbjörg sé furðulostin yfir því ákalli Miðflokksins og stuðningsmanna að þau verði fyrir gífurlegri þöggun og skoðanakúgun varðandi þetta málefni.

„Þessu hafa þau lýst yfir í öllum stærstu fjölmiðlum landsins. Tjáningarfrelsi þeirra er augljóslega ekki skert, en krafan virðist hins vegar vera sú að það eigi helst ekki að andmæla þeim staðreyndavillum sem farið er með eða gagnrýna það hvernig hlutir eru settir fram. Hvað þá þegar það er gert af krafti. Mér hefur aldrei verið sýnd jafn mikil vanvirðing sem þátttakanda í opinberri umræðu og á mánudaginn. Það, að Snorri Másson vogi sér síðan að kvarta yfir skoðanakúgun og þöggun í kjölfarið á því að hafa beinlínis reynt að þagga niður í mér með yfirgangi, er út í hött,“ skrifar Þorbjörg.

Atriðin sem komust ekki að í Kastljósi

Hún telur svo upp nokkur atriði sem hún hefði viljað segja í Kastljósi gegn Snorra, hefði hún komist að.

– Líffræðilegt kyn og kynbundnir eiginleikar (sem skipta þúsundum!) eru mun flóknari og breytilegri en svo að þeir passi eingöngu í tvo skýrt afmarkaða kassa. Hafið þið annars pælt í því að það er kynbundinn eiginleiki að konur laðast almennt að körlum og karlar almennt að konum?
Það er nefnilega þannig að ALLT hinsegin fólk lifir lífinu þvert á hugmyndir um „eðli“ karla og kvenna. Við erum einfaldlega hluti hins náttúrulega fjölbreytileika líkt og allt annað fólk. Kyn er ekki einfalt og sama hversu oft ‘það eru bara tvö kyn’ er endurtekið breytir nákvæmlega engu um raunveruleikann. Það eina sem svona umræða gerir er að ýta okkur lengra út á jaðarinn og gera lítið úr reynslu okkar. Og til hvers í ósköpunum?

– Trans fólk hefur haft lögfestan aðgang að kynjuðum rýmum á Íslandi frá árinu 2012, algjörlega óháð því hvernig líkami þeirra lítur út. Alþjóðaólympíunefndin setti sér fyrst viðmið um trans keppendur í íþróttum árið 2004. Áhersla afturhaldsafla á meint óréttlæti í afreksíþróttum og takmarkanir á notkun trans fólks á kynjuðum rýmum kemur fram af krafti um tíu árum seinna og hefur aðeins nýlega náð yfirborðinu hér. Hvort tveggja hefur verið mjög árangursríkt verkfæri fyrir þau sem vilja takmarka réttindi trans fólks almennt. Á Íslandi hafa samtöl um íþróttir, klefa og sundlaugar og fangelsi o.s.frv. farið fram reglulega við hlutaðeigandi stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki, félög og einstaklinga. Slík samtöl eiga sér ekki stað opinberlega við alla sem hafa skoðun á því hvort trans fólk eigi í alvörunni að njóta jafnréttis.

– Þegar við tölum um alþjóðlegt bakslag í kvenréttindum og hinsegin réttindum þá erum við að fara með staðreyndir. Það, að kjörinn fulltrúi kjósi að afskrifa staðreyndir sem samsæriskenningar, finnst mér mikið áhyggjuefni. Það ber að mínu mati merki þess að Snorri hafi einfaldlega sannfærst af þeim erlenda áróðri sem dynur á fólki, sem hefur haft þær afleiðingar að andstaða við réttindi hinsegin fólks (ekki bara trans fólks) er að aukast á meðal ungs fólks á íslandi – og sérstaklega ungra karlmanna. Það er kannski erfitt að bera kennsl á bakslagið þegar skoðanir manns og efasemdir um málaflokk trans fólks eru litaðar af því.

– Fólkið sem sakar Samtökin ‘78 um að beita börn ofbeldi, eyðileggja samfélagið, um að við stundum innrætingu, úrkynjun, satanískan áróður og talar jafnvel um að við séum réttdræp er sama fólkið og fagnar núna málflutningi Snorra Mássonar. Hann ber ekki ábyrgð á þeirra orðum eða gjörðum, en einhverra hluta vegna telja þau hann bandamann sinn. Ég hvet hann, eins og ég reyndar gerði eftir útsendinguna á mánudaginn, til þess að velta því fyrir sér hvers vegna.

– Ég þekki áhrif ofbeldishótana vel af persónulegri reynslu og hef samúð með öllum þeim sem fyrir slíku verða og að sjálfsögðu líka Snorra. Við sem vinnum að hinsegin réttindum, kvenréttindum og réttindum flóttafólks þekkjum þetta sérstaklega vel. Margt stjórnmálafólk þekkir þetta, lögreglufólk, blaðamenn. Það er hreinlega ömurlegt að finnast öryggi sínu ógnað og ég held að ekkert okkar vilji hafa samfélagið svona. Mörgum virðist brugðið við að opinber umræða geti haft alvöru afleiðingar í för með sér. Ég vona að þetta sama fólk sýni í kjölfarið hinsegin fólki, sem fær svona hótanir daglega eða verður fyrir tilefnislausri áreitni og ofbeldi, einnig skilning og kalli eftir stillingu í opinberri umræðu í okkar garð. Orð hafa áhrif, hvort sem maður vill það eða ekki, og það skiptir máli að velja þau vel.

Hér má sjá færslu Þorbjargar í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Varar við vopnakaupum Íslendinga fyrir Úkraínu – „Verðum við öruggari í kjölfarið?“

Varar við vopnakaupum Íslendinga fyrir Úkraínu – „Verðum við öruggari í kjölfarið?“
Fréttir
Í gær

Franska konan sem grunuð er um morð á hóteli í Reykjavík látin laus og úrskurðuð í farbann

Franska konan sem grunuð er um morð á hóteli í Reykjavík látin laus og úrskurðuð í farbann
Fréttir
Í gær

Bandarískur læknir lofar íslenska heilbrigðiskerfið – „Dásamleg upplifun“

Bandarískur læknir lofar íslenska heilbrigðiskerfið – „Dásamleg upplifun“
Fréttir
Í gær

Með viðvarandi einkenni í kjölfar bílslyss en alltaf send heim – Loks greind með MS en fullyrt að engin mistök hafi verið gerð

Með viðvarandi einkenni í kjölfar bílslyss en alltaf send heim – Loks greind með MS en fullyrt að engin mistök hafi verið gerð