fbpx
Fimmtudagur 04.september 2025
Fréttir

Þyrluflug og einkaflug á Reykjavíkurflugvelli hefur margfaldast – Hávaði truflar íbúa

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 4. september 2025 16:30

Þyrluflug einkavéla hefur margfaldast á undanförnum árum. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þyrluflug á Reykjavíkurflugvelli hefur margfaldast á aðeins fimm árum og flestar ferðirnar eru annað hvort útsýnis eða leiguflug. Samkvæmt mælingum nær hávaði yfir miðbæ Reykjavíkur og inn í Kópavog.

Þetta kemur fram í svari Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra, við fyrirspurn Rögnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. En hún spurði um þyrluflug á vegum einkaaðila og einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli.

Hávaði í margar áttir

Árið 2019 voru hreyfingar þyrla á Reykjavíkurflugvelli samtals 5.811 eins og kemur fram í fylgiskjali svarsins. Þar af 994 hjá vélum Landhelgisgæslunnar. Það gera 8,1 prósent af öllum hreyfingum á vellinum.

Árið 2024 voru hreyfingarnar orðnar 13.156 talsins, eða 29,1 prósent, en hreyfingar þyrla Landhelgisgæslunnar voru nokkurn vegin jafn margar og áður. Sem sagt fjölgunin er öll í einkaflugi, útsýnis og leiguflugi.

Hávaðakort EFLU.

Þá kemur einnig fram að leiguflug flugvéla hafi aukist mikið á vellinum. Það er farið úr 6.296 hreyfingum árið 2015 í 12.291 árið 2024. Hlutfallið hefur hækkað úr 9 prósentum í 30 prósent á tíu árum.

Í svarinu er einnig birt svokallað hávaðakort, sem unnið var af verkfræðistofunni EFLU árið 2021. Á því sést að hávaðinn nær ekki aðeins yfir svæði Reykjavíkurflugvallar heldur norður eftir öllum miðbæ Reykjavíkur og út að Hörpu. Einnig til austurs yfir Nauthólsvíkina og suður í Kópavog.

Rætt um að færa þyrluflugið

Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og fleiri hafa óskað eftir því að þyrluflugi einkaaðila verði fundinn annar staður. Í svari Eyjólfs kemur fram að þetta sé til skoðunar.

„Samtal hefur átt sér stað milli Isavia innanlandsflugvalla og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um skoðun á möguleikum þess að útbúa aðstöðu fyrir þyrlur á jaðri höfuðborgarsvæðisins. Málið var rætt á vettvangi SSH með skipulagsfulltrúum sveitarfélaganna en ekki liggur fyrir niðurstaða í málinu,“ segir þar. Reykjavíkurborg hefur samþykkt bann við flugi einkaþota og þyrla á vellinum.

Einnig kemur fram að í raun beri engum skylda að finna þessu þyrluflugi annan stað. „Það er einkum á ábyrgð þeirra sem áhuga hafa á að þyrluflug fari úr Vatnsmýrinni að finna og bjóða rekstraraðilum upp á annan valkost. Reykjavíkurborg og ríkið hafa beitt sér í þessu máli án niðurstöðu,“ segir í svarinu.

Flug minnkað í heildina

Ekki kemur fram hversu mikið af hávaðanum komi frá einkaþotum. Hávaðinn blandast inn í aðra flugumferð. Áætlunarflug hafi hins vegar minnkað á vellinum og þar með heildarhreyfingar. Heildarhreyfingar voru 70.793 árið 2015 en eru 41.537. Sem sagt flug, og þar með hávaði hefur minnkað, en einkaflug er orðinn stærri hluti af því.

Vilja losna við „óþarfa flugumferð“

Fulltrúar Hljóðmarka funda með Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi ráðherra, á síðasta ári. Mynd/Stjórnarráðið

Hávaði einkaþota og þyrla hefur angrað marga íbúa Hlíða, Miðbæjar, Vesturbæjar Reykjavíkur og Kársneshverfis í Kópavogi. Á síðasta ári voru stofnuð samtökin Hljóðmörk sem beita sér fyrir að draga úr það sem þau kalla „óþarfa flugumferð“ á Reykjavíkurflugvelli. Það er annað flug en áætlunarflug, sjúkraflug og flug Landhelgisgæslunnar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Bandarískur læknir lofar íslenska heilbrigðiskerfið – „Dásamleg upplifun“

Bandarískur læknir lofar íslenska heilbrigðiskerfið – „Dásamleg upplifun“
Fréttir
Í gær

Með viðvarandi einkenni í kjölfar bílslyss en alltaf send heim – Loks greind með MS en fullyrt að engin mistök hafi verið gerð

Með viðvarandi einkenni í kjölfar bílslyss en alltaf send heim – Loks greind með MS en fullyrt að engin mistök hafi verið gerð
Fréttir
Í gær

Trump birti myndband af því þegar ellefu fíkniefnasmyglarar voru sprengdir í loft upp

Trump birti myndband af því þegar ellefu fíkniefnasmyglarar voru sprengdir í loft upp
Fréttir
Í gær

Páll Óskar rifjar upp viðtal sem Snorri tók við hann árið 2022

Páll Óskar rifjar upp viðtal sem Snorri tók við hann árið 2022
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja eitt stórt vanta í nýja kanónu sænskrar sögu og menningar

Segja eitt stórt vanta í nýja kanónu sænskrar sögu og menningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landlæknir bregst við fordómum gagnvart hinsegin fólki – Þunglyndi, kvíði og sjálfsvígshugsanir fylgi félagslegri útskúfun

Landlæknir bregst við fordómum gagnvart hinsegin fólki – Þunglyndi, kvíði og sjálfsvígshugsanir fylgi félagslegri útskúfun