Íslenska karlalandsliðið í körfubolta hefur lokið keppni í lokakeppni Evrópumótsins en lið tapaði lokaleik sínum stórt á móti Frakklandi fyrr í dag. Liðið tapaði öllum leikjum sínum á mótinu, flestum naumlega og sumum á mjög ósanngjarnan hátt. Íslenskir stuðningsmenn sem mætt hafa á leiki liðsins, í Póllandi þar sem riðill Íslands fór fram, hafa stutt allan tímann dyggilega við bakið á liðinu. Það breyttist ekkert í lok leiks í dag. Íslensku áhorfendurnir sungu eins og hefð er fyrir á landsleikjum lagið Ég er kominn heim og leikmennirnir stóðu á vellinum og voru augljóslega afar þakklátir og svo djúpt snortnir yfir stuðningnum að á sumum mátti nánast sjá tár á hvarmi.
Þetta má sjá í stuttu myndbandi sem birt ert á Facebook-síðu FIBA-Europe, Körfuknattleikssambands Evrópu. Íslensku stuðningsmennirnir og íslenska liðið hafa náð að heilla marga í evrópskum körfubolta og ljóst er að söknuðurinn eftir þeim úr keppninni verður mikill eða eins og stendur í texta sem fylgir færslunni með myndbandinu:
„Hver er að skera laukinn?“
Myndbandið er greinilega tekið úr sjónvarpsútsendingu en þulirnir hrósa íslenska liðinu fyrir frammistöðu sína á mótinu. Þeir minna á að Ísland sé fámennasta landið til að vera með lið í lokakeppni EM og hafi verið óheppið að vinna ekki a.m.k. einn leik á mótinu. Þulirnir minna líka á að Ísland hafi verið hársbreidd frá því að komast í heimsmeistarakeppnina árið 2023 og telja vel mögulegt að það takist í næstu heimsmeistarakeppni sem fram fer árið 2027. Við skulum vona að sú spá rætist.
Myndbandið tilfinningaríka má sjá hér fyrir neðan.