„Já en kynin eru nú samt bara tvö“.
Þannig hefst fræðandi færsla Önnu Marzellíusardóttur, doktors í frumulíffræði. Anna segist í dágóðan tímahafa leyft því að fara í taugarnar á sér þegar fólk heldur ofangreindu fram, án þess að finnast nokkur þörf á að skýra mál sitt frekar, og oftar en ekki til að gera lítið úr tilvist trans fólks.
„Við vitum þetta jú, er það ekki? Við lærðum í grunnskóla að við fæðumst flest annað hvort sem kona, með tvo X-litninga, eða sem karl, með einn X-litning og einn Y-litning,“ segir Anna.
Hún bætir við að sig hafi oft langað til að skjóta inn í umræðuna hversu mikil einföldun þetta er, „benda á það hversu mikið flóknari raunveruleikinn sé, en satt best að segja hefur mér ekki fundist þetta vera það sem umræðan ætti að snúast um.“
Anna nefnir að sér finnist svo langtum mikilvægara að einfaldlega virða fólk sem upplifir það að kynvitund sín og líkami passi ekki saman.
„En við virðumst ekki öll vera sammála um það, þannig förum aðeins yfir nokkra hluti varðandi líffræði kynákvörðunar.
Vissulega eru kynlitningarnir tveir, X og Y, og flest okkar með XX eða XY samsetningu í frumum líkamans og upplifum okkur sem konu eða karl. En ef við skoðum þetta aðeins nánar, þá er á týpískum Y-litningnum til staðar gen sem heitir SRY hvers tjáning í stuttu máli veldur því að fóstur verði ekki kvenkyns. Það er til dæmis til fólk með XY litninga en stökkbreytt SRY gen sem lítur út eins og (og upplifir sig oftast sem) konur. Ef við héldum fast í XX/XY skilgreininguna þá yrðum við að halda því fram að þær séu bara alls ekki konur, því þær séu jú með Y-litning. Svo eru líka til karlar sem eru með XX litninga, en SRY genið hefur flust yfir á annan X-litninginn, valdandi því að líkaminn lítur út fyrir að vera karlkyns. Til viðbótar við þetta eru svo til allskonar aðrar kynlitningasamsetningar en XX/XY og genatjáning á þessum litningum og öðrum getur leitt til allskonar kyneinkenna.
Hver á að ákveða hver telst sem hvað? Þurfum við að vita hvaða litninga og gen og hvernig genatjáningu allir hafa? Veist þú með vissu hvernig þessu er háttað í þínum líkama?“
Segir Anna ekki hafa nokkurn tímann skoðað sína eigin kynlitninga og ekki séð ástæðu til þess hingað til.
Anna segist vilja leggja áherslu á það að henni finnist að „jafnvel þó allir pössuðu líffræðilega inn í þessa kynjatvíhyggju og engin gögn sýndu fram á annað ættum við samt að gera okkar besta til að skapa samfélag þar sem allt fólk, burtséð frá kyni, kynvitund og kynhneigð, upplifir sig velkomið. Aðgangur að viðeigandi heilbrigðisþjónustu er mikilvægur þáttur til að stuðla að því, en líka einfaldlega það að fólk finni fyrir stuðningi í orði og verki þegar einstaklingar, jafnvel þingmenn, virðast vilja setja spurningarmerki við tilverurétt þeirra. Því oftar sem fólk slengir fram fullyrðingum eins og þessari um kynin tvö, án þess að þeim sé svarað og bent á gögn sem sýna fram á annað, því erfiðara verður það fyrir trans fólk að einfaldlega vera það sjálft. Fegurð heimsins og mannfólksins felst í fjölbreytileikanum, og honum ættum við að fagna. Hversu ógeðslega leiðinlegt væri það ef við værum öll eins?“
Anna segist að lokum mæla með grein Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, ef fólk vill vita meira um núverandi þekkingu á líffræðilegu kyni.