„Þetta er sama eins og gerist í öðrum samböndum, ofbeldis samböndum, það er kannski ausið á þig lofi; „Þú ert svo yndisleg, falleg, dásamleg. Eigum við að skiptast á myndum“ og svo fer þetta út í: „Ég er með myndir af þér, þú þarft að senda mér fleiri myndir“ eða bara andlegt ofbeldi eins og við sjáum: „Af hverju ertu ekki online? Þú átt alltaf að vera ínáanleg, þú átt að gera eins og ég segi þér,““
segir Drífa Snædal talskona Stígamóta við RÚV.
Í gær fór fram ráðstefna á Akureyri um stafrænt ofbeldi, í tilefni 25 ára afmælis Jafnréttistofu. Stafrænt ofbeldi fer vaxandi og hafa 46 mál verið tilkynnt til lögreglu það sem af er þessu ári, eins og RÚV greinir frá. Mál þar sem börn eiga í hlut eru ekki inn í tölunni þar sem þau eru skráð sem varsla á barnaníðsefni.
Drifa segir að breyta þurfi lögum til að koma böndum á stafrænt ofbeldi, sem hún segir oft tengt öðrum tegundum ofbeldis. Ofbeldismenn hafi greiðan aðgang að þolendum sínum í gegnum netið og þolendur þurfi oft að lifa með skaðanum um ókomna tíð.
„Síðan ertu einhvern veginn hvergi óhult, þú ert alltaf með símann á þér þannig ofbeldið getur verið sífellt og stöðugt.“
Drífa segir einnig að fræðsla og umræða um málið sé sterkt vopn í baráttunni gegn stafrænu ofbeldi.