„Það væri efni í heilt viðtal, af hverju ég kýs að vera ekki á þessum leiðindamiðlum. Ég bara hata þá. Ég hata Facebook, Instagram og TikTok. Þetta truflar líf allra og er að menga okkar fallega heilabú. Hvort sem þú ert á þessu eða ekki þá gegnsýrir þetta allt,“
segir Matthías Tryggvi Haraldsson, listrænn ráðunautur Þjóðleikhússins og dramatúrg í viðtali við Sigurlaugu Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. Matthías tók þá ákvörðun fyrir nokkru að hætta á samfélagsmiðlum og segir það ekki eins flókið og margir haldi.
„Fólk heldur að það sé rosaleg ákvörðun og breyting að hætta en það er það ekki. Það er hægt að slökkva á þessu og halda áfram með líf sitt. Og finna út úr hinu, hvernig fólk hefur samband.“
Landsmenn þekkja Matthías best sem söngvara hljómsveitarinnar Hatara sem tók þátt í Eurovision 2019. Fyrir nokkrum árum tók Matthías á ákvörðun að hætta í hljómsveitinni og snúa sér að leikhúslífinu. Hann segist hafa hætt í góðu og enn fylgjast spenntur með félögum sínum, og margt framundan hjá þeim. Matthías segist einfaldlega hafa ákveðið að forgangsraða upp á nýtt þegar dóttir hans fæddist.
„Maður þarf að velja og hafna hvað maður er að fást við. Þessi hljómsveit var þannig að eitt leiddi af öðru og þetta stækkaði rosa hratt og var rosa spennandi en ég hafði lengi haft óljósa hugmynd um að ég stefndi annað. Ég hafði verið skrifandi og að pæla í leikhúsinu þannig að maður fer að þurfa að forgangsraða þegar börnin koma.
Ég er mjög glaður í Þjóðleikhúsinu og í þessu frábæra lífi. Ég reyni að vera góður pabbi og vona að það gangi vel. Ég elska þetta hlutverk. Þetta er toppurinn og fátt hefur eins ríkan tilgang fyrir mér og að vera pabbi.“
Matthías og eiginkona hans, Brynhildur Karlsdóttur tónlistarkonu, tóku ákvörðun um að selja hús þeirra í Kópavogi og flytja í Hvalfjörðinn. Hún ætlar að kenna söng í Borgarbyggð en Matthías verður áfram í Þjóðleikhúsinu.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.