Pósturinn fagnar Græna póstdeginum sem haldinn er hátíðlegur ár hvert og að þessu sinni ber hann upp á 18. september. Með honum er vakin athygli á því að póstfyrirtæki um allan heim hafi skuldbundið sig til að vinna að sjálfbærni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í flutningum sínum. Saman hefur fyrirtækjunum tekist að draga úr losun svo um munar eða sem samsvarar því sem dæmi að 6,7 milljónir bíla væru teknir úr umferð í heilt ár.
Alþjóðasamtök póstfyrirtækja, IPC, standa að Græna póstdeginum sem nú er haldinn í sjöunda sinn. „Þennan dag fögnum við því að póstfyrirtækin geti í sameiningu náð árangri í sjálfbærni og loftslagsaðgerðum og viljum minna á mikilvægi sjálfbærrar póstþjónustu,“ segir Ásdís Káradóttir, sjálfbærnistjóri Póstsins.
Mikilvæg orkuskipti í bílaflotanum
„Pósturinn gerðist þátttakandi í þessu samstarfi árið 2023 og við höfum m.a. lagt okkar af mörkum með orkuskiptum bílaflotans. Sex stærstu flutningabílarnir okkar ganga nú alfarið fyrir vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu, VLO100, í stað hefðbundinnar dísilolíu en VLO100 er framleitt úr endurunninni jurtaolíu og lífrænum úrgangsefnum. Með því að nota VLO100 minnkar losun koltvísýrings um 90%. Losun frá bílaflota Póstsins dróst saman um 28% milli áranna 2023 og 2024 og vísbendingar eru um að losun flotans dragist enn meira saman í ár. Það er fagnaðarefni,“ segir Ásdís.
Losun koltvísýrings dregist saman um 31 tonn frá 2008
Að sögn Ásdísar hafa póstfyrirtækin sett sér sameiginleg markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fyrir árið 2030. Frá upphafi samstarfsins árið 2008 hafi þau saman náð að draga úr losun koltvísýrings í starfsemi sinni um rúmlega 31 tonn en það jafngildi:
„Margar hendur vinna létt verk“
Ásdís segir alþjóðlegt samstarf veita Póstinum tækifæri til að læra af öðrum póstfyrirtækjum og fá hugmyndir að nýjum verkefnum og markmiðum. „Margar hendur vinna létt verk og við erum þess fullviss að saman náum við lengra í átt að grænni framtíð fyrir komandi kynslóðir. Það hvetur okkur einnig áfram að geta borið árangur okkar saman við árangur annarra póstfyrirtækja. Auk þess getum við sett fram viðeigandi upplýsingar á agaðri máta því að aðferðafræði og gögn sem við leggjum til eru reglulega yfirfarin af löggiltum endurskoðendum.“