Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í réttarsálfræði við Kings College-háskólann í London og sérfræðingur í fölskum játningum, segir að handskrifaðir miðar með ýmsum sjálfsásökunum, sem hjúkrunarfræðingurinn Lucy Letby hafði í fórum sínum, séu óáreiðanlegt sönnunargagn um játningu eða saknæman ásetning og að taka hefði þá átt með miklum fyrirvara.
Þetta kemur fram í frétt The Sunday Times um málið en Letby hlaut fimmtánfaldan lífstíðardóm fyrir að myrða sjö börn á Countess of Chester-sjúkrahúsinu árin 2015 og 2016. Þá var hún einnig sakfelld fyrir tilraun til manndráps gagnvart sex öðrum börnum.
Málið gegn Letby er eitt umtalaðasta sakamál síðari tíma í Bretlandi. Undanfarið hafa þó komið fram háværar raddir um að Letby sé saklaus af glæpum sínum. Á dögunum freistuðu verjendur hennar að fá málið endurupptekið en því var synjað.
Eitt af mikilvægari sönnunargögnum gegn Letby voru handskrifaðar miðar þar sem hún virtist meðal annars gefa í skyn að hún væri sek í málinu. Aðrir sambærilegir miðar bentu hins vegar til sakleysis hennar.
Morgunblaðið fjallar um málið og í viðtali segir Gísli að Letby hafi skrifað miðana því henni hafi liðið illa vegna málsins.
„Þetta notaði saksóknari sem játningar fyrir dómi og var aldrei neitt sett út á það, þetta var bara tekið gilt,“ segir Gísli í viðtalinu. Hann hefur átt þátt í að hrekja fjölda játninga í ýmsum sakamálum og rifjar Morgunblaðið meðal annars upp mál Oliver Campbell, greindarskerts manns sem sat inni þriðjung ævi sinnar vegna manndráps í kjölfar ráns í London. Gísli sýndi hins vegar fram á að lögregla hefði þvingað fram játningu greindarskerts manns og var hann því sýknaður í fyrra.