Fyrrverandi glímumaðurinn Conor McGregor hefur tilkynnt að hann sé hættur við framboð til forseta Írlands. Kennir hann framboðsreglunum um en útlit var fyrir að hann myndi bíða afgerandi ósigur.
McGregor, sem er 37 ára gamall, var fyrst orðaður við embættið árið 2023. Síðan þá hefur hann viðrað öfgahægri skoðanir sínar og daðrað við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Í mars á þessu ári tilkynnti McGregor að hann hygðist bjóða sig fram sem óháður frambjóðandi í forsetakosningunum sem fram fara í lok október.
Nú hefur McGregor tilkynnt að hann sé hættur við og kennir kosningalöggjöfinni um. Það er að reglur um meðmælendur séu of hamlandi, séu eins og „spennitreyja.“
„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en þetta var sú rétta á þessum tímapunkti,“ sagði hann í færslu á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt írskum lögum verða frambjóðendur að hafa stuðning 20 þingmanna eða 4 sveitarstjórna til að geta boðið fram. Sagði McGregor að þetta hygldi ríkjandi öflum í landinu.
Hins vegar var ljóst að stuðningur við framboð hans væri afar takmarkaður. Þrátt fyrir frægð hans og vinsældir innan glímuheimsins, þar sem hann hefur milljónir fylgjenda um allan heim, þá mældist stuðningur við McGregor aðeins um 7 prósent í skoðanakönnunum, langt á eftir öðrum frambjóðendum. Sá McGregor því fram á að kosningarnar yrðu niðurlægjandi rothögg fyrir hann.