fbpx
Miðvikudagur 23.júlí 2025
Fréttir

Nýjasta uppátæki Trump vekur óhug – Hótar handtöku forvera síns

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. júlí 2025 22:07

Donald Trump

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluvert uppnám hefur skapast í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump forseti landsins birti myndband sem búið var til með gervigreind þar sjá má handtöku forvera Trump í embætti, Barack Obama. Eftir sem áður eru viðbögðin misjöfn eftir því hvert viðhorfið er til forsetans. Hans hörðustu stuðningsmenn eru ánægðir en andstæðingar hans eru slegnir óhug.

Trump birti myndbandið í færslu á samfélagsmiðli sínu Truth Social en nánar er fjallað um það hér.

Tilefni myndbandsins er að Tulsi Gabbard yfirmaður njósnamála í Bandaríkjunum sendi í liðinni viku frá sér skjöl þar sem fullyrt er að fyrir forsetakosningarnar árið 2016 hafi Obama, sem var þá forseti, og starfsmenn hans markvisst unnið að því að koma vísvitandi á framfæri röngum fullyrðingum um að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna til stuðnings Trump og að samvinna hafi verið milli starfsmanna hans og fulltrúa rússneskra stjórnvalda um afskipti af kosningunum.

Margir stuðningsmenn forsetans hafa tekið undir að skjölin sýni fram á glæpsamlegt samsæri af hálfu Obama-stjórnarinnar og því hefur verið gefið undir fótinn í umfjöllun að minnsta kosti sumra fjölmiðla, þar á meðal Fox-News að  um markvisst athæfi til að draga úr sigurlíkum Trump hafi verið að ræða. Fjölmiðilinn segist hafa til að mynda heimildir fyrir því að John Brennan, fyrrverandi forstjóri leyniþjónustunnar CIA, og James Comey, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI, séu nú til rannsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu meðal annars vegna ásakana um að hafa logið að þinginu þegar meint tengsl Rússa við kosningabaráttu Trump voru til rannsóknar á fyrra kjörtímabili hans.

Dreifa athyglinni

Í hinu umdeilda myndbandi sem Trump birti segir að enginn sé hafinn yfir lögin. Fyrr í dag gekk Trump síðan skrefinu lengra og sagði við fréttamenn að Obama og hans fólk sé sekt um að hafa reynt að svindla í forsetakosningunum 2016 til að tryggja kjör Hillary Clinton. Sagði hann um landráð að ræða og að tiltækið ætti að hafa afleiðingar en lagði þó ekki fram við þetta tækifæri neinar sannanir um fullyrðingar sínar.

Skrifstofa Obama hefur svarað ásökunum Trump og sagt þær fáránlegar en um leið alvarlegar. Það sé ekkert í skjölunum frá Gabbard sem afsanni það að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. Bendir skrifstofa forsetans fyrrverandi á að leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar hafi árið 2020 komist einmitt að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna 2016 en nefndin var þá undir forystu Marco Rubio sem er í dag utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trump og einnig þjóðarörryggisráðgjafi forsetans. Segir einnig í yfirlýsingunni að Rússar hafi ekki náð að hafa nein veruleg áhrif á niðurstöðu kosninganna en hafa ber í huga að samkvæmt rannsókn sem Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri FBI, stýrði fundust ekki neinar sannanir um samvinnu Trump og hans fólks við Rússa um markviss afskipti af kosningunum. Niðurstaðan varð þó sú að Rússar hefðu haft afskipti af kosningunum og að einstaka ráðgjafar Trump hefðu verið í tengslum við útsendara rússneskra stjórnvalda, í aðdraganda kosninganna.

Skrifstofa Obama segir ljóst að þetta uppátæki Trump sé í þeim tilgangi að dreifa athygli frá hinni hörðu gagnrýni sem hann hefur hlotið fyrir tengsl sín við hinn heimsþekkta kynferðisbrotamann Jeffrey Epstein. Þegar blaðamenn spurðu í dag forsetann um fund sem aðstoðarsaksóknari í dómsmálaráðuneytinu átti með Ghislaine Maxwell samverkakonu Epstein, sem afplánar nú fangelsisdóm en er sögð hafa sóst eftir náðun frá forsetanum, svaraði hann ekki en fór þess í stað að tala um Obama og ásakanirnar í hans garð.

Skjölin

Trump og embættismenn hans hafa verið sakaðir um leyndarhyggju í málum tengdum Jeffrey Epstein og ásakanir um að forsetinn komi við sögu í hinum margfrægu Epstein-skjölum eru lífseigar en bent hefur verið á móti á að Epstein og Trump sinnaðist fljótlega upp úr síðustu aldamótum og munu hafa haft lítil sem engin samskipti fram til þess tíma að sá fyrrnefndi framdi sjálfsvíg í fangelsi.

Dómsmálaráðuneytið hefur verið tregt til að opinbera Epstein-skjölin sem eru sögð innihalda meðal annars nöfn manna sem brutu kynferðislega á ungum konum og stúlkum fyrir milligöngu Epstein. Það hefur ýtt undir ónægju sumra stuðningsmanna Trump en sumir sem eru honum andsnúnir eru vissir um að nafn Trump sé eitt af þessum nöfnum en eins og áður segir ýtir þróun samskipta forsetans og Epstein ekki undir slíkar fullyrðingar.

Framganga Trump hefur þó ekki náð að ýta þessari tortryggni fyllilega til hliðar og pólitískir andstæðingar hans segja þetta nýjasta uppátæki og fleiri, eins og t.d. krafa um að NFL-liðið Washington Commanders taki aftur upp sitt fyrra nafn Washington Redskins, séu í þeim tilgangi að dreifa athyglinni frá málefnum tengdum Jeffery Epstein

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

6 hæða hótel mun rísa í Borgartúni 1

6 hæða hótel mun rísa í Borgartúni 1
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

„Ömurleg uppákoma“ segir Stefán um árás á ljósmyndara Morgunblaðsins

„Ömurleg uppákoma“ segir Stefán um árás á ljósmyndara Morgunblaðsins
Fréttir
Í gær

Sigrún birtir aldrei tásumyndir – Ástæðan er hvimleitt fyrirbæri

Sigrún birtir aldrei tásumyndir – Ástæðan er hvimleitt fyrirbæri
Fréttir
Í gær

„Þá hafði fólk þetta gert aðsúg að honum fyrir það eitt að vera dökkur á hörund að keyra leigubíl“

„Þá hafði fólk þetta gert aðsúg að honum fyrir það eitt að vera dökkur á hörund að keyra leigubíl“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurþóra slasaðist á andliti – „Mér finnst ég þurfa að útskýra þetta lúkk“

Sigurþóra slasaðist á andliti – „Mér finnst ég þurfa að útskýra þetta lúkk“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ganga um merktir í miðbænum í einskonar „foreldrarölti“ – Skildir Íslands segja vegið að íslenskum gildum

Ganga um merktir í miðbænum í einskonar „foreldrarölti“ – Skildir Íslands segja vegið að íslenskum gildum