Græntæknifyrirtækið Climeworks hefur ekki náð að standa við eigin markmið um kolefnisföngun á Íslandi, samkvæmt ítarlegri umfjöllun í nýjasta blaði Heimildarinnar. Samkvæmt gögnum sem miðillinn segist hafa aflað hefur fyrirtækið einungis fangað um 2.400 tonn af koltvísýringi (CO₂) með Orca-vél fyrirtækisins á Hellisheiði frá því rekstur hófst árið 2021, þrátt fyrir að markmiðið hafi verið 4.000 tonn á ári.
Gengur starfsemi fyrirtækisins út á að stórar viftur sjúga loft inn í gegnum síur og er markmiðið að grípa CO₂ úr andrúmsloftinu. Þessi aðferð krefst hins vegar mikillar orku þar sem eingöngu mjög lítill hluti andrúmsloftsins inniheldur CO2.
Nýjasta föngunarver Climeworks á Íslandi, Mammoth – sem sagt var vera stærsta lofthreinsiver heims – hóf starfsemi fyrir tæpu ári síðan og átti að geta fangað 36.000 tonn af CO₂ árlega. Áætlanirnar hafa ekki gengið eftir því fullyrt er í grein Heimildarinnar, og vísað gögn frá alþjóðlega vottunaraðilanum Puro.Earth, um að hingað til hafi aðeins náðst að fanga 105 tonn.
Heimildin bendir einnig á að rekstur fyrirtækisins hér á landi sé fjármagnaður með stuðningi móðurfélagsins í Sviss og að eiginfjárstaða félagsins hafi verið neikvæð um 3,6 milljarða króna í lok árs 2023. Þá hefur virði Orca-stöðvarinnar lækkað um samtals 2,7 milljarða króna vegna lítillar nýtingar.
Þrátt fyrir að hafa selt fjölda kolefniseininga fyrir framtíðarföngun, auk 21.000 áskrifenda sem greiða mánaðarlega fyrir þjónustuna, hefur afhending dregist á langinn. Heimildin greinir frá því að sumir kaupendur, líkt og breski eðlisfræðingurinn Michael de Podesta, séu farnir að efast um að einingarnar verði nokkru sinni afhentar. Hefur eðlisfræðingurinn hreinlega velt því upp hvort um svikastarfsemi sé að ræða.
Þá kemur fram í umfjöllun Heimildarinnar að Climeworks hafi ekki enn náð að kolefnisjafna sinn eigin rekstur – árið 2023 losaði fyrirtækið meira af CO₂ en það fangaði. Upprunalegt markmið um að fanga 1% af allri heimsútblæstri fyrir árið 2025 (um 400 milljón tonn) virðist með öllu óraunhæft og kostnaður við hvert fangað tonn hefur rokið upp í 1.000 dali, sem er tífalt það sem áður var áætlað.
Fyrirtækið hefur nú horft til nýrra aðferða eins og grjótveðrunar til að hraða framleiðslu kolefniseininga, en sú tækni þykir umdeild. Heimildin vekur athygli á því að þrátt fyrir mikinn opinberan stuðning, bæði frá Sviss og Bandaríkjunum, séu árangur og áreiðanleiki Climeworks enn langt frá háleitum yfirlýsingum fyrirtækisins.