„Að segja að skipulögð brotastarfsemi sé „komin til að vera“ er eins og að segja að við getum ekkert gert til að draga úr loftslagsbreytingum. Þetta eru pólitískar ákvarðanir,“ segir Halldóra Mogensen, fyrrverandi þingmaður Pírata, í pistli á Facebook-síðu sinni. Halldóra er þar að bregðast við ummælum Gríms Grímssonar, þingmanns Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjóns á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Vísir greinir frá viðtali Gríms við hlaðvarpið Ein pæling. Þar segir Grímur að Ísland sé ekki undanskilið þróun skipulagðrar brotastarfsemi sem hefur átt sér stað á Norðurlöndunum, sérstaklega í Svíþjóð. Skipulögð brotastarfsemi sé komin til að vera. Lýsir Grímur yfir áhyggjum af vaxandi afbrotaþróun sem hann segir hafa breiðst út frá Svíþjóð og nú til annarra nágrannaríkja. Hann bendir á að sænskir afbrotamenn notist við börn eða ungmenni til að fremja afbrot og komast þannig hjá þyngri refsingum. Öll Norðurlöndin standi frammi fyrir nýjum veruleika í þessum efnum.
Hann segir að glæpamenn nýti sér Shengen-svæðið sem heimilar frjálsa för milli stórs hluta Evrópu. „Jafnvel þó við sem eyja norður í hafi, þá er auðvelt að komast hingað og Norðurlandabúar geta komið hér á þess að þurfa neina sérstaka heimild. Allir íbúar Shengen-svæðisins geta komist hingað án þess,“ segir Grímur í viðtalinu.
Hann segir ennfremur: „Ég held að við náum ekki að koma í veg fyrir það að við færumst nær þeim veruleika sem er á Norðurlöndunum, en við getum hins vegar reynt að koma málum þannig fyrir að við hægjum á því og sköpum betra ástand hér heldur en þar.“
Halldóra Mogensen segir að pólitískar ákvarðanir séu að baki þessari þróun í afbrotum. Hún sé ekkert náttúrulögmál. Hörð refsistefna í fíkniefnamálum skapi frjóan jarðveg fyrir skipulagða glæpastarfsemi og gengjaþróun. Hún bendir á að refsistefnan hafi verið við lýði í yfir hálfa öld, hún ýti undir ofbeldi og ójöfnuð. Hún spyr hvort ekki sé kominn tími til að reyna aðra leiðir:
„Að segja að skipulögð brotastarfsemi sé „komin til að vera“ er eins og að segja að við getum ekkert gert til að draga úr loftslagsbreytingum. Þetta eru pólitískar ákvarðanir.
Svíþjóð og önnur lönd með stranga refsi- og bannstefnu í vímuefnamálum eru að sjá meiri og verri glæpi en lönd sem taka upp skaðaminnkandi nálgun. Það er ekki tilviljun að Svíþjóð, með eina ströngustu vímuefnastefnu Evrópu, hefur nú langversta gengjvandann á Norðurlöndunum.
Margir sænskir sérfræðingar í afbrotafræði, eins og Jerzy Sarnecki og Leif GW Persson, hafa bent á að refsistefnan í fíkniefnamálum hafi skapað frjóan jarðveg fyrir skipulagða glæpastarfsemi og gengjamyndun í Svíþjóð. Þeir benda á að með því að setja fíkniefnamarkaðinn algjörlega utan laganna, hafi verið skapaður nýr flokkur glæpamanna og að gengin njóti góðs af því að ríkið hafi gefið þeim algjöra einokun á þessum markaði.
Þetta er nákvæmlega sú þróun sem Johann Hari lýsir í „Að hundelta ópið“, ströng refsistefna skapar ekki bara markaðsaðstæður fyrir hættulega svartamarkaði, heldur beinlínis ýtir undir ofbeldi, ójöfnuð og fleiri samfélagsvandamál.
Við höfum prófað refsistefnuna í 50+ ár. Hvernig gengur? Glæpir aukast, dauðsföll aukast, gengjatengd morð aukast.
Skipulögð brotastarfsemi er ekkert náttúrulögmál. Svíþjóð er ekki fordæmi sem við ættum að fylgja. Hún er viðvörun um það sem gerist þegar þegar við þrjóskumst við að viðhalda skaðlegri og ómannúðlegri stefnu.“