DV og Vísir hafa fjallað um mál Sigurbjargar síðustu daga en hún bjó í sama húsnæði og síbrotakona sem haldið hefur nágrönnum sínum í heljargreipum ofbeldis, þjófnaða og skemmdarverka.
Jón steig fram í pistli á Vísi á mánudag og greindi frá því að dóttir hans væri að missa húsnæðið vegna ógreiddrar leigu. „Mér skilst að upp á síðkastið hafi hún hreinlega neitað að greiða leiguna. Ég get raunar vel skilið það: Bríetartún 20 getur ekki kallast mannabústaður,“ sagði hann í grein sinni og bætti við að íbúar í stigaganginum byggju við stöðugan ótta og öryggisleysi.
Það var svo í gær að fulltrúar sýslumanns mættu í Bríetartún til að bera Sigurbjörgu út, en eins og fram kom í frétt DV í gær hætti hún að borga leigu til að leggja áherslu á kröfu sína um að hún fengi flutning vegna konunnar í stigaganginum.
DV ræddi við Sigrúnu eftir útburðinn í gær þar sem hún var spurð út í mál Sigurbjargar og framgöngu leigjandans sem hefur haldið nágrönnum sínum í heljargreipum. Í pistli á Vísi í morgun fer Jón yfir svör Sigrúnar.
Sjá einnig: Framkvæmdastjóri Félagsbústaða um ástandið í Bríetartúni – „Þetta er sannarlega ekki góð staða“
„Eftir að Sigurbjörgu, fimmtugri dóttur minni og langt gengnum fíkli, var fleygt út á gangstéttina við Bríetartún í gærmorgun brá skyndilega svo við að bæði Vísir og DV náðu tali af Sigrúnu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Félagsbústaða. Eftir að hafa lesið þessi viðtöl sat ég nokkra stund og horfði á myndina af þessari konu. Og ég gat ekki að því gert, að mér þótti ég sjá lygina leka niður hökuna á henni, líkt og þegar smábörn slefa,“ segir Jón og bætir við að harla fátt í máli hennar hafi verið sannleikanum samkvæmt, kannski helst það að allir þurfi að borga leigu.
Hann vísar svo í umfjöllun DV þar sem sagði:
„DV spurði Sigrúnu út í tvö tengd mál sem hafa verið í fréttum undanfarna daga. Annars vegar er það framganga eins leigjandans, síbrotakonu sem heldur nágrönnum sínum í heljargreipum ofbeldis, þjófnaða og skemmdarverka. Hins vegar er það mál Sigurbjargar Jónsdóttur, leigjanda í húsinu, sem borin var út úr íbúð sinni í dag …“
Svarið er skráð svona í DV:
„Ég get því miður ekki talað opinberlega um málefni tiltekinna einstaklinga, en bæði þessi mál eru í vinnslu. Í öllum tilvikum þarf að fylgja ákveðnum lögum og reglum varðandi húsreglnabrot og önnur brot og við erum að fylgja því. […]
Jón segir að það sé haugalygi að útburðarmálið sé í vinnslu. „Því var lokað með níðingsverkinu í gærmorgun. Sé hitt málið í einhvers konar vinnslu hefur sú vinnsla staðið yfir í meira en tvö ár. Ég sé í minnispunktum mínum, að það hefur verið 3. ágúst 2023, sem ég lagði leið mína í höfuðstöðvar Félagsbústaða til að ræða mögulega flutning Sigurbjargar, dóttur minnar, í skárra húsnæði. Ég talaði þá við konu sem greinilega gegndi einhverri stjórnunarstöðu og henni reyndist mætavel kunnugt um ástandið í stigaganginum,“ segir Jón í grein sinni á Vísi.
Segir hann að ef Sigrún telji sig vera að fylgja lögum og fylgja eftir reglum um húsreglnabrot sé hún annaðhvort að segja vísvitandi ósatt eða fullkomlega ófær um að gegna þessu starfi. „Og reyndar getur þetta tvennt farið ágætlega saman,“ segir hann síðan.
Hann heldur svo áfram að vísa í viðtal DV við Sigrúnu þar sem hún var spurð hvort hún kannist við að meðal leigjenda Félagsbústaða séu einstaklingar sem geti verið hættulegir umhverfi sínu. Því svaraði Sigrún svona:
„Ef það eru einstaklingar sem eru hættulegir öðrum þá þurfa að vera þannig aðstæður að hægt sé að tryggja öryggi annarra. En við erum í sambandi við fólkið og erum að vinna þetta eftir bestu getu. Það er kannski ekki alveg nægjanlegt.”
Jón gefur henni prik fyrir að vita að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi fólks. „En að Félagsbústaðir séu í sambandi við íbúa og reyni að vinna úr málum eftir bestu getu, virðist í allra besta lagi vera bull. Og í síðustu málsgreininni er orðinu ”kannski” algerlega ofaukið,“ segir hann í grein sinni á Vísi í morgun.
Hann bætir svo við að Félagsbústaðir létu þrífa stigaganginn um sjöleytið í gærmorgun og segir Jón að haft hafi verið eftir einum íbúanum að það hafi gerst í fyrsta sinn í manna minnum. „Eftir athygli fjölmiðla daginn áður hefur sennilega þótt rétt að gera fínt áður en ljósmyndarar mættu á staðinn,“ segir Jón sem vandar Sigrúnu ekki kveðjurnar og rifjar upp vantraustsyfirlýsingu sem var lögð fram gegn henni af starfsmönnum fyrir skemmstu.