Óhætt er að fullyrða að eldar logi enn innan raða sósíalista eftir viðburðaríkan aðalfund Sósíalistaflokks Íslands í gær. Þar voru Gunnar Smári Egilsson, áhrifamesti flokksmaðurinn frá stofnun flokksins, og margir samstarfsmenn hans felldir í kosningum til hinna ýmsu ráða. Gunnar Smári, sem var formaður framvæmdastjórnar flokksins sóttist til að mynda eftir endurkjöri en varð ekki ágengt.
Gunnar Smári hefur tekið tíðindunum af yfirvegun, að minnsta kosti á samfélagsmiðlum, lét hafa eftir sér að hann sæi fram á spennandi tíma, sem yrðu þó mögulega fjarri vettvangi Sósíalistaflokksins. Þá hafa allnokkrir félagar greint frá því að þeir hyggist segja sig úr flokknum, sér í lagi þeir sem ekki náðu kjöri í þau ráð sem stefnt var að.
Sanna Magdalena Mörtudóttir hélt þó sínum sess sem pólitískur leiðtogi flokksins en hún liggur þó undir feld og íhugar stöðu sína og hvort að hún treysti sér til þess að vinna með nýrri stjórn.
Einn nánasti samstarfsmaður Gunnars Smára og Sönnu Magdalenu hefur verið Sara Stef Hildar en hún missti sömuleiðis sæti sitt í framkvæmdastjórn. Sara steig fram á Rauða þræðinum, umræðuvettvangi sósíalista á Facebook, og fór þar hörðum orðum um Sæþór Benjamín Randalsson, nýjan formann framkvæmdastjórnar flokksins.
Birti hún til að mynda skjáskot af umræðuþræði þar sem Sæþór fullyrðir í raun að hún sé strengjabrúða Gunnars Smára, sem er ekki ósvipað því sem Sanna Magdalena hefur mátt sitja undir nánast allan sinn pólitíska feril. Sara brást hins vegar harkalega við og sagði Sæþór vera allt að því með þráhyggju fyrir völdum innan flokksins.
„Það er auðvitað ekki hægt að sitja þegjandi undir svona svívirðingum. Ég hef starfað að fúsum og frjálsum vilja með Sósíalistaflokknum síðan 2021 þegar ég bauð mig fram sem varamann í framkvæmdastjórn. Síðan hef ég tekið að mér mjög vanþakklát hlutverk ritarara, gjaldkera og loks varaformanns þegar fólk í þeim hlutverkum hefur þurft að hverfa til annara skuldbindinga í sínu lífi. Ég hef aldrei sóst eftir völdum eins og Sæþór Benjamín Randalsson en hann hefur talað fyrir því að það sé best að hann sé formaður – nánast frá því að hann kom til starfa. Það má næstum tala um þráhyggju ef ég á að vera alveg heiðarleg. En. Nú hefur honum tekist þetta, ekki með lýðræðislegum vinnubrögðum eða fylgi, heldur smölun og handriti um hvernig eigi að færa honum völdin í hendur. Verði þeim að góðu sem tóku þátt í þess með honum,“ skrifar Sara.
Nýjir stjórnarmenn hafa boðað það að horfið verði frá því að umræðan um starf flokksins sé á samfélagsmiðlum og verði þess í stað á lokuðum félagsfundum. Hefur strax borið á gagnrýni á það fyrirkomulag og það sagt vera útilokandi fyrir þá sem eru ekki alveg í hringiðu starfsins og til að mynda félaga úti á landsbyggðinni. Sara er að minnsta kosti ekki bjartsýn á fyrirkomulagið.
„Það er kannski ekki úr vegi að rifja upp þegar ég stofnaði sellu í Kópavogi með Sæþóri og félaga hans Karl Héðinn Kristjánsson. Sú sella varð samt aldrei neitt. En samtalsformið og fundir í hús, augliti til auglitis er nú samt formið sem þeir byggja allt sitt á í nýjum flokki: samtal í félaga á staðnum með lokuðum fundum. Skrýtið að þeir hafi áttað sig á lexíunni með selluna í þessum samfélagsmiðlavædda heimi. En ok.
Ég hef starfað með flokknum til að starfa með hreyfingu og lagt mitt af mörkum til að hún megi þrífast sem best. Ég vissi auðvitað eins og aðrar meðvitaðar og gagnrýnar konur að það er mikil pungstybba inni í flokknum en hef þurft að láta mig hafa það eins og úti í almenningi. Ég vissi bara ekki að stybban væri svona stæk hjá yngri körlunum líka. Engin er hissa samt. Feðraveldið er spriklandi þarna úti eins og inni á fundum þessarar nýju stjórnar flokksins. Það er mjög auðvelt að sjá kvenfyrirlitninguna í þvi hvernig skipað var á framboðslista hjá þessari fylkingu og hvernig raðast í hlutverk innan stjórna á morgun þegar þessir herramenn mæta til starfa -skv. stimpilklukku virðist vera. Þeim liggur víst ekkert á að upplýsa kjósendur sína eða aðra um hvernig nýr Sósíalistaflokkur lítur út. Þetta verður seint kallað Ágætis byrjun,“ skrifar Sara.