Málefni græna gímaldsins svokallaða, verslunar- og skrifstofuhús, við Álfabakka 2a í Breiðholti var tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa fimmtudaginn 15. maí síðastliðinn.
Undir lið 23 á fundinum kemur fram að á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 29. apríl 2025 var lagt fram erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 15. apríl 2025 þar sem sótt er um leyfi til að breyta húsnæðinu þannig að:
„breytingar verða á rýmisnúmerum, kjötvinnsla minnkar og gerðar eru smávægilegar breytingar á innra skipulagi 1. hæðar.“
Erindinu var vísað til umsagnar verkefnastjóra og lagt fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. maí 2025. Umsögn skipulagsfulltrúa, sem fylgir með í fundargerð á vef borgarinnar, var samþykkt.
Fundargerðin er 4 bls. Og undir hana ritar fyrir hönd skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, Borghildur Sölvey Sturludóttir, sem er deildastjóri deiliskipulagsáætlana.
Farið er yfir aðal- og deiliskipulag sem eru í gildi, breytingar á útgefnu byggingarleyfi, umsögn og að lokum niðurstöðu. Það er niðurstaðan og þá helst lokaorð hennar sem eru athyglisverð og ansi afgerandi um álit Borghildar á byggingunni.
Niðurstaðan er svohljóðandi:
„Með hliðsjón af stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um landnotkun í Suður-Mjódd er ljóst að heimild er til staðar á lóðinni nr. 2A við Álfabakka fyrir fjölbreyttri verslunar- og þjónustustarfsemi og annarri hreinlegri atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi viðkomandi miðsvæðis.
Kjötvinnsla sem veldur óverulegum umhverfisáhrifum og annar sambærilegur þrifalegur iðnaður, á takmörkuðum hluta viðkomandi svæðis og/eða hluta viðkomandi byggingar, er talin geta samræmst gildandi heimildum Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, sbr. umfjöllun hér að framan, enda skrifstofur, verslun og þjónusta klárlega ráðandi landnotkun og meginstarfsemi á umræddu svæði.
Með hliðsjón af öllu framangreindu telur skipulagsfulltrúi að fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu við Álfabakka 2A, sem fela m.a. í sér netverslun og minnkun á þegar samþykktri kjötvinnslu, sé óveruleg og sé því í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á svæðinu. Rétt er að geta þess að kjötvinnsla er óverulegur hluti af þeirri starfsemi sem er á miðsvæði M12 og aðeins lítill hluti af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er í húsinu og er því talin samræmast gildandi ákvæðum aðalskipulags og deiliskipulags.“
Niðurstaðan er svo botnuð með tveimur málsgreinum sem verða að teljast lýsa ansi persónulegri og afgerandi skoðun á byggingunni:
„Leyfi til að gera ljótar byggingar er mikið á Íslandi – löggjöfin spyr hvorki um fagurfræði né samhengi. Það er því sorgleg staðreynd að þeir sem fara með völd, fjármagn og fyrirferðamikinn rekstur skuli ekki sýna frekari metnað í uppbyggingu á miðsvæðum höfuðborgarsvæðisins.
Fagurfræði er ekki smekkur – fagurfræði er samhengi – og þessa byggingu skortir slíkt.“