Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við óprúttnum aðilum sem hafa herjað á Íslendinga undanfarna mánuði og heft vel upp úr krafsinu. Samkvæmt tilkynningu lögreglu hafa borist margar tilkynningar síðustu vikur og mánuði um fjársvik og tilraunir til fjársvika.
„Því miður hafa svikahrapparnir haft mikið upp úr krafsinu, en frá því í mars á þessu ári og fram í miðjan man, eða á tveimur og hálfum mánuði, hafa óprúttnir aðilar haft um 100 m.kr af fólki og fyrirtækjum með þessum hætti.“
Algengt er að svikararnir sendi tölvupóst eða skilaboð á einstaklinga eða til fyrirtækja. Eins hefur borið á því að fyrirtæki fái til sín falsaða reikninga. Sömuleiðis hafa símtöl borist frá símanúmerum sem bera það með sér að vera íslensk en eru í raun frá brotamönnum.
„Því er full ástæða til að vara við öllum slíkum gylliboðum sem þau kunna að innihalda. Munið að ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það líklega ekki satt.“
Í þessum símtölum og skilaboðum er fólki gjarnan boðin aðstoð við kaup á rafmynt og öðru. Fólki er bent á að setja upp sérstök forrit, svo sem forrit sem kallast Anydesk. Lögreglan varar sérstaklega við þessum forritum þar sem með því að setja þau upp er verið að bjóða hættunni heim. Svikararnir fá aðgang að raftækjum fólks.
Eins eru dæmi um að svikararnir hafi svo aftur samband og bjóði aðstoð við endurheimt, en í raun er þetta bara framhald á svindlinu.
„Ríkt tilefni er líka til að vara við aðilum, sem í gegnum skilaboð eða símtal, bjóða fram aðstoð sína og vilja fá fólk til að deila skjá í tölvu eða öðru tæki með viðkomandi, en það kallast,,screen-sharing“. Með þeirri aðferð kemst svikarinn yfir miklar upplýsingar og fær mögulega aðgang að tölvupósti, heimabanka o.s.frv. Af þessu getur hlotist mjög mikið tjón. Loks má nefna að borið hefur á því að verið sé að nýta bágindi fólks, t.d. fjársafnanir fyrir einstaklinga sem eru sagðir vera frá Gaza, en eru það ekki.
Lögreglan minnir fólk á að vera á varðbergi þegar svindlarar eru annars vegar og hvetur það til að kynna sér umfjöllun hennar um netöryggi, sem er að finna á lögregluvefnum – Netöryggi | Lögreglan“