Dómur er fallinn í Héraðsdómi Vesturlands í máli á milli eigenda fasteignar á ónefndum stað í landshlutanum. Kona sem er ein af eigendunum þess og bjó í húsi sem tilheyrir eigninni lagði fram kæru á hendur tveimur karlmönnum, sem einnig eiga hlut í eigninni, fyrir húsbrot með því að hafa ruðst inn án hennar samþykkis og tekið myndir. Mennirnir, sem voru á endanum sýknaðir, sökuðu á móti konuna um að búa í húsinu án þeirra samþykkis og annarra eigenda og sögðu myndatökuna hafa verið í þeim tilgangi að skrásetja slæma umgengni og sóðaskap hennar.
Mennirnir voru ákærðir fyrir húsbrot og brot á friðhelgi einkalífs konunnar með því að taka myndirnar og dreifa þeim .
Konan tilkynnti upphaflega um málið á lögreglustöðinni í Borgarnesi. Sagði hún húsið sem mennirnir fóru inn í vera hennar heimili og þeir hefðu enga heimild haft frá henni til að fara þangað inn og athæfi þeirra hefði haft veruleg áhrif á andlega líðan hennar. Sem ein af eigendunum fékk konan tölvupóst með umræddum myndum sem voru alls sex en pósturinn bar yfirskriftina:
„Rusl og drasl út um allt.“
Í póstinum var síðan ritað að umgengnin um húsið væri sú versta sem ritari póstsins hefði nokkurn tímann séð.
Atvikið átti sér stað árið 2022. Tekin var skýrsla af mönnunum sitt í hvoru lagi. Annar þeirra sagði að dyrnar á húsinu hefðu verið opnar en konan ekki verið heima. Þegar hann hefði komið inn hefði honum blöskrað óþrifnaðurinn og umgengnin og ákveðið að taka myndirnar og sent þær til meðal annars konunnar í því skyni að krefjast þess að umgengnin yrði bætt. Sagði hann konuna raunar hafa búið í húsinu í hans óþökk og aldrei greitt neina leigu.
Hinn maðurinn staðfesti að dyrnar hefðu verið opnar þegar þeir fóru inn. Hann sagði að töluvert hefði verið þá síðan hann kom síðast inn í húsið. Hann hefði þó strax tekið eftir að húsið væri vatnslaust. Sturtan hefði verið biluð, ekkert vatn verið á klósettinu og ekki í eldhúsvaskinum heldur. Taldi hann ljóst að húsið væri óíbúðarhæft og ekki væri búið í því heldur í næsta húsi við hliðina. Lögðu mennirnir síðar fram myndband þar sem mátti heyra þá meðal annars ræða við lögreglumann um að koma yrði konunni úr húsinu við hliðina á því húsi sem málið snerist einkum um.
Fyrir dómi sagði annar maðurinn að konan ætti ekki lögheimili í húsinu enda væri slíkt ekki hægt þegar kæmi að slíkum húsum. Það kemur ekki fram í dómnum um hvers konar hús er nákvæmlega að ræða.
Sagði hann deilur um húsin á staðnum hefðu lengi staðið yfir. Hann hefði oft gengið inn um opnar dyr á húsum í sveitinni án þess að vera sakaður um húsbrot. Hann hefði talið öruggt að hann og hinn maðurinn mættu skoða eignina þar sem þeir hefðu skömmu áður fengið bréf þar sem farið hefði verið fram á slit á sameign á umræddri eign. Þeim hefði hins vegar brugðið þegar þeir hefðu komið inn. Ljóst hefði verið að enginn myndi vilja setja húsið á sölu í því ástandi sem við hefði blasað.
Hinn maðurinn tók að öllu leyti undir þennan framburð og ítrekaði að húsið hefði verið í óíbúðarhæfu ástandi.
Fyrir dómi sagði konan að hún teldi sig hafa átt lögheimili í húsinu eins og því sem væri við hliðina. Hún neitaði því að gert hefði verið samkomulag um að hún flytti burt en staðfesti að enginn samningur hefði verið gerður um hennar afnot af eigninni.
Þrír aðrir eigendur að húsinu komu fyrir dóminn. Einn sagði konuna hafa búið í húsinu með fullu samþykki hans. Hinir tveir sögðust hafa sent mönnunum bréf um slit á sameign eignarinnar ekki síst þar sem slæmt samkomulag hefði verið í eigendahópnum.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands segir að miðað við áðurnefnt myndband og framburð annars þeirra hjá lögreglu hafi mennirnir bersýnilega gert sér grein fyrir að konan hefði haft húsið til umráða. Á hinn bóginn liggi ekki annað fyrir en að dyr að húsinu hafi verið opnar, eða ólæstar, og að mennirnir hafi því ekki þurft að grípa til valdbeitingar til að komast þar inn. Þá verði ekki annað séð en að þeir hafi farið þar inn án launungar enda hafi annar þeirra sent myndirnar strax í kjölfar þess að þeir fóru þar inn.
Dómurinn vísar einnig til bréfsins um slit á sameign á umræddri eign og að í því hefði mönnunum verið gefinn frestur til að samþykkja sölu á eigninni og því haft fullt tilefni til að fara inn í húsið til að kanna ástand þess.
Dómurinn segir liggja fyrir að enginn samningur hafi verið gerður um afnot konunnar heldur hafi mennirnir og aðrir sameigendur þvert á móti átt í langvinnum deilum um eignina. Telur dómurinn að ekki hafi verið sýnt fram á að mennirnir hafi framið húsbrot og ekki verði séð annað en að þeir hafi aðeins verið að gæta eiginn hagsmuna. Þeir voru því sýknaðir af ákæru um húsbrot.
Út frá sömu rökum sýknaði dómurinn mennina sömuleiðis af ákæru um að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs konunnar. Vísar dómurinn þá einnig til þess að engir aðrir en eigendur að eigninni hafi fengið myndirnar sendar.
Hver staða deilnanna um þessa fasteign er nákvæmlega í dag kemur hins vegar ekki fram í dómnum.