

Mamdani, sem er 34 ára, sigraði fyrrverandi ríkisstjóra New York-ríkis, Andrew Cuomo, sem bauð sig fram sem óháður. Þá hafði hann betur gegn Repúblikanum Curtis Silva.
Mamdani sagði við stuðningsmenn sína, sem fylltu Paramount-leikhúsið í Brooklyn og kölluðu nafn hans: „Ég er múslimi. Ég er lýðræðissinnaður sósíalisti. Og það sem verra er í augum sumra: ég neita að biðjast afsökunar á nokkru af þessu.“
Mamdani hefur lofað því að fólk geti ferðast með strætisvögnum án endurgjalds, hækka skatta á auðuga og stórfyrirtæki og ná stjórn á erfiðum leigumarkaði. Gagnrýnendur hans óttast að hugsanlegar aðgerðir hans muni leiða til fjöldaflótta úr borginni og lama efnahag hennar.
Í ræðu sinni eftir sigurinn lofaði hann „nýrri dögun“ fyrir New York og beindi svo nokkrum vel völdum orðum að Donald Trump Bandaríkjaforseta sem hefur kallað Mamdani kommúnista.
„Ef einhver borg getur sýnt þjóðinni hvernig á að stöðva Donald Trump, þá er það borgin sem hann sjálfur kemur úr,“ sagði hann.
Þá sagði hann að hann og kosningateymið hefðu fellt pólitíska ætt. „Ég óska Andrew Cuomo alls hins besta í einkalífi sínu, en látum þessa nótt verða í síðasta sinn sem ég nefni nafn hans, því nú snúum við blaðinu við í stjórnmálum sem hafa yfirgefið fjöldann og þjóna aðeins fáum,“ sagði hann.