fbpx
Þriðjudagur 04.nóvember 2025
Fréttir

„Það er brýnt að við hættum að tala um kynlífsverkafólk og byrjum að tala við það“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 4. nóvember 2025 15:00

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir að það sé ekki í okkar verkahring að „bjarga“ kynlífsverkafólki. Það sem við eigum að gera sé að tryggja því réttindi, vernd og mannlega virðingu.

Guðmundur Ingi skrifar grein um þetta á vef Vísis en tilefnið er ráðstefna í Norræna húsinu sem hann sótti um liðna helgi. Ráðstefnan bar heitið Sögur kynlífsverkafólks og Opinber stefna og kom þar sem saman fagfólk, fræðimenn, mannréttindasinnar og kynlífsverkafólk sem deildi eigin reynslu og sögum.

Guðmundur segir að raddirnar sem heyrðust hafi verið fjölbreyttar og þær lýst veruleikanum á ólíkum forsendum.

Starfað í neðanjarðarumhverfi

„Á ráðstefnunni tóku einnig til máls fulltrúar frá samtökum kynlífsverkafólks í Svíþjóð og Noregi. Þeir lýstu því hvernig baráttan fyrir réttindum og sýnileika þessa hóps hefur þróast þar og hvernig löggjöfin, sem svokölluð sænska leið, hefur reynst í reynd. Sú nálgun felur í sér að kaup á kynlífi eru refsiverð, en það hefur í mörgum tilvikum leitt til aukinnar jaðarsetningar og hættu fyrir kynlífsverkafólk, sem neyðist til að starfa í neðanjarðarumhverfi. Þannig skapast skilyrði þar sem öryggi og mannréttindi víkja fyrir ótta, fordómum og þögn,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann er þeirrar skoðunar að á Íslandi sé umræðan um vændi og kynlífsstarfsemi enn mjög takmörkuð og lituð af sterkum siðferðilegum viðhorfum fremur en félagslegu raunsæi.

„Það hefur orðið til þess að rödd þeirra sem málið snertir mest hefur verið nánast ósýnileg. Þessi hópur er fjölbreyttur og engin ein lýsing nær utan um hann. Sumir eru í þessari starfsemi vegna fátæktar, neyslu, áfalla eða félagslegra aðstæðna. Aðrir hafa meðvitað valið þetta starf, sumir sjá það sem tímabundna tekjuleið, aðrir sem fasta atvinnu. Það sem sameinar hópinn er hins vegar skortur á öryggi, vernd og aðgengi að heilbrigðisþjónustu og félagslegum úrræðum,“ segir Guðmundur Ingi og heldur áfram:

„Það er brýnt að við hættum að tala um kynlífsverkafólk og byrjum að tala við það. Það er eina leiðin til að móta stefnu og löggjöf sem byggir á raunverulegum þörfum fólks en ekki á hugmyndum annarra um hvað sé „rétt“ eða „rangt“.“

Fáir fulltrúar stjórnmálaflokka

Guðmundur Ingi segir að mannréttindasjónarmið, jafningjafræðsla og virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti þurfi að vera leiðarljós í þessari umræðu.

„Við verðum líka að skilja að vændi og mansal eru ekki sami hlutur. Mansal er glæpur og brot á mannréttindum, en kynlífsstarfsemi á eigin forsendum er annars eðlis. Að blanda þessu tvennu saman gerir meira ógagn en gagn og skaðar málstað þeirra sem þurfa vernd og stuðning.“

Guðmundur Ingi segir að ráðstefnan hafi verið fróðleg og áhrifamikil. Hann hefur þó orð á því að það hafi verið miður að sjá hversu fáir fulltrúar stjórnmálaflokka mættu.

„Ég tók eftir tveimur þingmönnum og einum borgarfulltrúa, en slíkur málaflokkur krefst víðtækari pólitískrar þátttöku og áhuga. Ef stjórnvöld ætla að taka mannréttindi alvarlega verða þau að hlusta á raddir fólks sem lifir við þessar aðstæður og vinna með þeim, ekki yfir þeim.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Tekur ekki undir með Snorra Mássyni og segir Miðflokkinn ekki á móti innflytjendum

Tekur ekki undir með Snorra Mássyni og segir Miðflokkinn ekki á móti innflytjendum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sótti um vinnu og skilaði inn fölsuðu sakarvottorði til að fela brotaferil

Sótti um vinnu og skilaði inn fölsuðu sakarvottorði til að fela brotaferil
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óhugnanlegt kynferðisbrotamál ungmenna á Suðurnesjum – Dreifðu myndbandi af nauðgun gegn ólögráða stúlku á Snapchat

Óhugnanlegt kynferðisbrotamál ungmenna á Suðurnesjum – Dreifðu myndbandi af nauðgun gegn ólögráða stúlku á Snapchat
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vitni lýsir blóðbaðinu í lestinni – „Þeir eru með hníf, ég var stunginn“

Vitni lýsir blóðbaðinu í lestinni – „Þeir eru með hníf, ég var stunginn“