
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands þann 13. nóvember vegna atvika sem urðu á Akureyri í lok ágústmánaðar árið 2023. Tveir kornungir menn voru þar ákærðir fyrir húsbrot og gripdeild með því að hafa farið án heimildar inn í herbergi á ótilteknum stað (afmáð úr dómi) á Akureyri og gripið þar til sín JBL Partýbox 310 og Playstation 5 tölvu með diskadrifi og fjarstýringu og horfið af vettvangi í bifreið. Verðmæti þessara muna sem voru teknir er rúmlega 200 þúsund krónur.
Annar mannanna var að auki ákærður fyrir vopnlagabrot með því að hafa haft í vörslu sinni útdraganlega kylfu.
Lýsing á málsatvikum í texta dómsins er óvenjuleg. Var tilkynnt um yfirstaðið innbrot á Akureyri og þegar lögregla kom á vettvang tók tilkynnandi á móti henni og var í miklu uppnámi. Skýrði hann frá því að félagi hans byggi í húsinu en hann hafi verið í íbúðinni til að gefa kettinum hans.
Hann hafi verið búinn að vera þar í um klukkustund þegar strákar hafi ráðist þar inn. Þeir hafi verið með klúta, annar með „bandana“ fyrir hálfu andlitinu og hinn með trefil, báðir hafi verið dökkhærðir og annar með „mullet“ klippingu. Hann kvaðst hafa staðið upp en þeir hent
honum aftur í rúmið, tekið hvíta Playstation 5 tölvu með diskadrifi, hvíta fjarstýringu með henni og svartan Partybox hátalara. Bar hann kennsl á mennina og sagði þá hafa komið á dökkbláum Volkswagen Golf.
Síðar kom í ljós að mennirnir hefðu brotist inn til að sækja tösku í eigu stúlku einnar sem hefði orðið eftir heima hjá húsráðanda. Hann hafi ítrekað boðið henni að sækja töskuna og ástæðulaust hafi verið að brjótast inn til hans og stela þar dýrum munum. Kom fram að drengirnir hefðu einnig tekið umrædda tösku en vitnið gleymt að skýra lögreglu frá því.
Í dómnum kemur fram að lögregla hafi orðið mannanna var nálægt Kjarnaskógi þar sem þeir höfuð tekið golfbíla traustataki en skilið þá eftir. Flýðu þeir af vettvangi á rafhlaupahjólum. Bíllinn sem mennirnir höfðu verið á við innbrotið fannst nálægt golfskálanum. Í bílnum fannst hvít Playstation fjarstýring. Eftir töluverðar vendingar, sem raktar eru ítarlega í texta dómsins tókst að hafa hendur í hári mannanna og finna þýfið.
Ákærðu voru aðeins 15 og 16 ára er brotin voru framin. Var refsingu annars þeirra frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum ef hann heldur almennt skilorð.
Hinn maðurinn var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi.
Dóminn má lesa hér.