fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fréttir

Segir kynjajafnrétti og aukna þátttöku karla í umönnun barna hafa breytt orðasambandinu „eiga von á barni“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 07:30

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, skrifar daglega pistla um íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun í Málspjall og heldur úti hópi á Facebook undir sama nafni. Í nýlegum pistli fór hann yfir það hvort karlmenn gætu átt von á barni. 

„Í innleggi í Málspjalli í dag var sagt: „Undrandi að sjá á RÚV frétt um að tveir ráðherrar eigi von á barni, karlkyns ráðherrar.“ Í umræðum kom fram að innleggshöfundi fannst óeðlilegt að sambandi eiga von á barni væri notað um karlmenn, og sama fannst greinilega fleiri sem tóku þátt í umræðunni þótt öðrum fyndist þetta fullkomlega eðlilegt orðalag.“

Segir Eiríkur í sjálfu sér ekki óeðlilegt að einhver hrökkvi við að sjá þetta. Vísar hann til þess að í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið eiga von á barni skýrt „vera ófrísk“ sem vitanlega vísar eingöngu til kvenna. Þar er líka að finna annað mjög skylt samband sem getur eingöngu vísað til kvenna (og annarra leghafa), eiga von á sér <um mánaðamótin> sem er skýrt „eiga að fæða barn um mánaðamótin“.

Eiríkur segir að þótt sambandið eiga von á barni hafi einkum verið notað um konur má finna ýmis gömul dæmi um að það sé notað um karla og vísar til nokkurra dæma:

Í Nýjum kvöldvökum 1915 segir: „Perrinette var þunguð, og […] hann átti von á barni með henni.“ Í Vikunni 1944 segir: „Maurice trúir Renny fyrir því, að hann eigi von á barni með stúlku, sem heitir Elvira Grey.“ Í Dagskrá 1946 segir: „Ef þýzkur maður átti von á barni í Noregi átti hann að skýra frá því.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1963 segir: „hann á von á barni með annarri stúlku.“ Í Fálkanum 1964 segir: „Hann á von á barni með dóttur Plastik-Smith.“ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „En Hallgrímur varð ekki af því talinn að eiga þessa konu sem hann átti von á barni með.“ Í DV 1985 segir: „Hann á von á barni.“

Mynd: Unsplash.com

Eiríkur segir þessi dæmi sýna að áður fyrr þegar vísað var til karla þá fylgdiforsetningin með oftast með orðasambandinu áður fyrr: „eiga von á barni með <einhverri konu>.“

„Það þurfti sem sé að taka fram að karlarnir stæðu ekki í þessu hjálparlaust. Hið sama gilti hins vegar ekki um konur – barnsfaðirinn var sjaldnast nefndur. Sambandið hefur einnig lengi verið notað um hjón eða fjölskyldur.“

Tekur Eiríkur fleiri dæmi þess:

Í Alþýðublaðinu 1934 segir: „Og við eigum meira að segja von á barni.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Fjölskylda ein, sem þegar var á fátækraframfæri, átti von á barni.“ Í Vikunni 1942 segir: „Við eigum von á barni.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „Og svo fer hann frá mér til hennar og þau eiga von á barni.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Við hjónin eigum von á barni.“

Eiríkur segir að ef marka megi vefinn timarit.is virðist dæmum um að karlar eigi von á barni fara mjög fjölgandi kringum síðustu aldamót og upp úr því.

„Varla leikur nokkur vafi á því að það tengist meira kynjajafnrétti og aukinni þátttöku karlmanna í umönnun barna, aukinni tilfinningu fyrir því að þótt konan gangi með barnið sé karlinn ekki stikkfrí heldur sé meðgangan og undirbúningur fæðingarinnar í raun verkefni beggja.

Í Risamálheildinni eru 170 dæmi um hann á von á barni, 434 um hún á von á barni og 347 um þau eiga von á barni. Það er þess vegna enginn vafi á því að í þótt sambandið eiga von á barni hafi áður einkum vísað til kvenna merkir það ekki lengur „vera ófrísk“ í málvitund mjög margra, heldur bókstaflega „eiga von á barni“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Vilhjálmur eftir frétt RÚV í gærkvöldi – „Tími til kominn að segja stopp. Heimilin á Íslandi hafa fengið nóg“

Vilhjálmur eftir frétt RÚV í gærkvöldi – „Tími til kominn að segja stopp. Heimilin á Íslandi hafa fengið nóg“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðni svarar Halldóri: „Hneisa að nefna fyrirtæki starfandi á Íslandi enskum nöfnum“

Guðni svarar Halldóri: „Hneisa að nefna fyrirtæki starfandi á Íslandi enskum nöfnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erla safnar undirskriftum til að seinka klukkunni

Erla safnar undirskriftum til að seinka klukkunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Krefst bóta eftir ruddalegt athæfi á skemmtistað

Krefst bóta eftir ruddalegt athæfi á skemmtistað