

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, skrifar daglega pistla um íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun í Málspjall og heldur úti hópi á Facebook undir sama nafni. Í nýlegum pistli fór hann yfir það hvort karlmenn gætu átt von á barni.
„Í innleggi í Málspjalli í dag var sagt: „Undrandi að sjá á RÚV frétt um að tveir ráðherrar eigi von á barni, karlkyns ráðherrar.“ Í umræðum kom fram að innleggshöfundi fannst óeðlilegt að sambandi eiga von á barni væri notað um karlmenn, og sama fannst greinilega fleiri sem tóku þátt í umræðunni þótt öðrum fyndist þetta fullkomlega eðlilegt orðalag.“
Segir Eiríkur í sjálfu sér ekki óeðlilegt að einhver hrökkvi við að sjá þetta. Vísar hann til þess að í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið eiga von á barni skýrt „vera ófrísk“ sem vitanlega vísar eingöngu til kvenna. Þar er líka að finna annað mjög skylt samband sem getur eingöngu vísað til kvenna (og annarra leghafa), eiga von á sér <um mánaðamótin> sem er skýrt „eiga að fæða barn um mánaðamótin“.
Eiríkur segir að þótt sambandið eiga von á barni hafi einkum verið notað um konur má finna ýmis gömul dæmi um að það sé notað um karla og vísar til nokkurra dæma:
Í Nýjum kvöldvökum 1915 segir: „Perrinette var þunguð, og […] hann átti von á barni með henni.“ Í Vikunni 1944 segir: „Maurice trúir Renny fyrir því, að hann eigi von á barni með stúlku, sem heitir Elvira Grey.“ Í Dagskrá 1946 segir: „Ef þýzkur maður átti von á barni í Noregi átti hann að skýra frá því.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1963 segir: „hann á von á barni með annarri stúlku.“ Í Fálkanum 1964 segir: „Hann á von á barni með dóttur Plastik-Smith.“ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „En Hallgrímur varð ekki af því talinn að eiga þessa konu sem hann átti von á barni með.“ Í DV 1985 segir: „Hann á von á barni.“

Eiríkur segir þessi dæmi sýna að áður fyrr þegar vísað var til karla þá fylgdiforsetningin með oftast með orðasambandinu áður fyrr: „eiga von á barni með <einhverri konu>.“
„Það þurfti sem sé að taka fram að karlarnir stæðu ekki í þessu hjálparlaust. Hið sama gilti hins vegar ekki um konur – barnsfaðirinn var sjaldnast nefndur. Sambandið hefur einnig lengi verið notað um hjón eða fjölskyldur.“
Tekur Eiríkur fleiri dæmi þess:
Í Alþýðublaðinu 1934 segir: „Og við eigum meira að segja von á barni.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Fjölskylda ein, sem þegar var á fátækraframfæri, átti von á barni.“ Í Vikunni 1942 segir: „Við eigum von á barni.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „Og svo fer hann frá mér til hennar og þau eiga von á barni.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Við hjónin eigum von á barni.“
Eiríkur segir að ef marka megi vefinn timarit.is virðist dæmum um að karlar eigi von á barni fara mjög fjölgandi kringum síðustu aldamót og upp úr því.
„Varla leikur nokkur vafi á því að það tengist meira kynjajafnrétti og aukinni þátttöku karlmanna í umönnun barna, aukinni tilfinningu fyrir því að þótt konan gangi með barnið sé karlinn ekki stikkfrí heldur sé meðgangan og undirbúningur fæðingarinnar í raun verkefni beggja.
Í Risamálheildinni eru 170 dæmi um hann á von á barni, 434 um hún á von á barni og 347 um þau eiga von á barni. Það er þess vegna enginn vafi á því að í þótt sambandið eiga von á barni hafi áður einkum vísað til kvenna merkir það ekki lengur „vera ófrísk“ í málvitund mjög margra, heldur bókstaflega „eiga von á barni“.