fbpx
Þriðjudagur 07.október 2025
Fréttir

Aðalheiður kærði ofbeldi leigubílstjóra hjá Hreyfli – Fyrirtækið aðhafðist ekkert í 834 daga og þolendum fjölgaði

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 7. október 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalheiður Ósk Þorsteinsdóttir, sem var beitt ofbeldi af hálfu leigubílstjóra hjá Hreyfli, veltir fyrir sér hvernig verklagi er háttað hjá Hreyfli og því áhugaleysi sem stjórnendur þar sýndu hennar máli um margra mánaða skeið. Gerandi hennar var rekinn fyrir viku og ber fyrirtækið við trúnaði um brottreksturinn að hennar sögn.

Eins og fram kom í fréttum um helgina var leigubílstjóri frá Hreyfli handtekinn fyrir stórfellda líkamsárás gegn kvenkyns farþega í Dugguvogi í Reykjavík aðfararnótt sunnudags.

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við Vísi um helgina að málið væri til rannsóknar hjá lögreglu og var bílstjórinn handtekinn í umferðinni skömmu eftir árásina.

Lýsing á árásinni gekk á milli í færslu á samfélagsmiðlum og nafnlaus ábending um málið var einnig send til fjölmiðla. Í ábendingunni var bílstjórinn sagður af erlendum uppruna. Samkvæmt heimildum DV er bílstjórinn hins vegar hávaxinn, þrekinn og hvítur. Nokkur fjöldi vitna var að árásinni og segja þau manninn hafa rifið í konuna, hent henni í jörðina og gengið í skrokk á henni. Þá er hann sagður hafa keyrt á konuna og keyrt síðan af vettvangi.

Í gærkvöldi greindi Vísir frá því að leigubílstjórinn hefði umsvifalaust verið rekinn frá Hreyfli vegna málsins. „Stjórn Hreyfils harmar það alvarlega atvik sem átti sér stað um helgina þar sem farþegi varð fyrir ofbeldi af hálfu leigubifreiðarstjóra sem ók undir merkjum fyrirtækisins,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Hreyfils í kjölfar fyrirspurnar blaðamanns. „Um leið og atvikið komst upp var viðkomandi bílstjóri umsvifalaust rekinn af Hreyfli og brottrekstur tilkynntur til Samgöngustofu.“

Tilkynnti ofbeldi annars leigubílstjóra til Hreyfils sem aðhafðist ekkert

Í máli Aðalheiðar er um annan leigubílstjóra að ræða en þann sem handtekinn var vegna Dugguvogsmálsins um helgina. Önnur kona hefur einnig kært meintan geranda Aðalheiðar til lögreglu, og eru því tvær konur hið minnsta búnar að kæra þann leigubílstjóra til lögreglu, sem og til Hreyfils. Sá maður var að sögn Aðalheiðar loksins rekinn frá Hreyfli þann 30. september síðastliðinn og hafa því tveir leigubílstjórar frá Hreyfli verið reknir í síðustu viku vegna meints ofbeldis gegn kvenkyns farþegum fyrirtækisins. Þrátt fyrir að gerandi Aðalheiðar hafi verið rekinn fyrir viku fékk hún ábendingar um að hann hefði keyrt undir merkjum fyrirtækisins um helgina og á island.is er hann enn skráður sem leigubílstjóri undir merkjum Hreyfils.

„Eins og ég sagði frá í persónulegum skrifum sem ég deildi hér um daginn þá er ég er þolandi einstaklings sem vann hjá Hreyfli – þar til í síðustu viku. Ég fagna því að í þessu máli var stigið strax inn, annað en í mínu máli. Á sama tíma er sárt fyrir aðra þolendur að horfa upp á að sumstaðar er stigið inn, annarstaðar ekki. Það er óskiljanlegt að þetta verklag gangi ekki yfir alla starfsmenn Hreyfils.“

Þannig byrjar Aðalheiður færslu sína á Facebook þar sem hún ber saman mál leigubílstjóranna tveggja, síns geranda þar sem Hreyfill aðhafðist ekkert og Dugguvogsbílstjórans sem var rekinn sama dag og hann var handtekinn.

Í samtali við DV segist Aðalheiður hafa kært sinn geranda til lögreglu og þrátt fyrir mikið magn af gögnum og margar kærur hafi málið verið fellt niður. Segist hún hafa rætt við fleiri konur sem segja geranda Aðalheiðar einnig hafa brotið á þeim. 

Gerandi Aðalheiðar er fyrrum unnusti hennar.

„Í mínum huga er það ekkert leyndarmál um hvern ég er að tala og ég vil heldur ekki að það sé leyndarmál af því þá er maður bara að styðja gerendur með þessari ógeðslegu þögn þeirra.

Ég kærði minn geranda fyrir mörg brot og fékk fimm niðurfellingar á 834 dögum, þá fimmtu og síðustu í febrúar á þessu ári. 

Það var aldrei talað við vitni í mínu máli, samt segir lögreglan að þetta sé fullrannsakað.  Verklagið í þessum málum, þetta virkar ekki. Þetta virkar ekki af því að Samgöngustofa sem ég er bara í góðum samskiptum við, þau vilja heldur betur grípa betur inn í og taka svona fólk í burtu af þessum vinnustað eða úr þessari starfsstétt. En Samgöngustofa getur ekkert gert ef það fellur ekki dómur og það fellur ekki dómur af því að réttarkerfið virkar ekki. Þess vegna var boltinn hjá Hreyfli og Hreyfill vildi ekki taka boltann í mínu máli. Ég held að minn gerandi hafi komist upp með þetta svona lengi hjá Hreyfli bara þangað til að þau gátu ekki annað en láta hann fara út af reiði almennings. Af því hann er Íslendingur.“

Segir Aðalheiður umræðuna um leigubílstjóra og ofbeldi sem nokkrir þeirra hafa beitt hafa triggerað hana, þar sem umræðan beinist nær alfarið að því að leigubílstjórarnir séu dökkir á hörund og jafnvel hælisleitendur. Það eigi alls ekki við um hennar geranda, sem er íslenskur, hvítur, og fæddur og uppalinn hér á landi. Segir hún umræðuna ekki eiga að snúast um húðlit heldur ofbeldið sjálft, sem taka þarf mun fastari tökum á og laga verklag þeirra fyrirtækja og stofnana sem koma að kynferðisbrotamálum.

Fékk skilaboð frá stjórnarmanni Hreyfils á Messenger

Í gögnum sem DV hefur undir höndum má sjá að stjórnarmaður Hreyfils sendi Aðalheiði skilaboð á Messenger þann 30. september síðastliðinn um að hennar gerandi starfaði ekki lengur sem leigubílstjóri þar, hann hefði verið rekinn. Aðspurður um af hverju bílstjórinn hafi verið látinn fara svarar stjórnarmaðurinn því til að það sé trúnaðarmál. En hann segir að tekið sé á málum sem koma upp hjá Hreyfli í samráði við lögfræðinga þeirra, og ef ástæða sé talin fyllileg og gögn sem þeir hafa samkvæmt lögum Hreyfils og landsins til að gera eitthvað í málunum þá geri þeir það.

Hér skal minnt á að Aðalheiður reyndi að hennar sögn að sýna Hreyfli fram á það í 834 daga að hennar gerandi ynni sem leigubílstjóri á þeirra vegum. Aðalheiður opnaði sig um mál sitt í lokuðum hópi þolenda á Facebook fyrir nokkrum dögum. Eftir að hún steig fram með sína reynslu af gerandanum, réttarkerfinu og Hreyfli þá hefur fjöldi kvenna haft samband við Hreyfil vegna óánægju í garð fyrirtækisins.

„Það er mikill hiti í fólki yfir ykkar vinnubrögðum og það er til skammar að forstjóri Hreyfils skuli ekki hafa beint samband við mig og biðja mig afsökunar á þessari framkomu. Að lokum trúnaðarmál? Ég er hluti af þessu trúnaðarmáli! Skammist ykkar,“ svarar Aðalheiður skilaboðum stjórnarmanns Hreyfils.

Segir Aðalheiður að að hennar mati eigi ekki að reka fólk úr vinnu án þess að mál séu könnuð, en ekki sé hægt að hafa fólk í vinnu án þess að taka alvarlegar ásakanir eins og í hennar máli til skoðunar. Segir hún að ef hún hefði fengið að ráða hefði Hreyfill tekið mál hennar til athugunar, rætt við hana, rætt við geranda hennar,  farið yfir öll gögn málsins og tekið sjálfstæða ákvörðun. Hreyfill hafi hins vegar ekkert aðhafst eins og áður kom fram.

Í færslu Aðalheiðar segir hún jafnframt:

„Þar til í síðustu viku hafði ég reynt að koma upplýsingum um geranda minn til Hreyfils í marga mánuði. Upplýsingum sem sýndu fram á brot gagnvart mér og fleiri konum. Einnig ræddi ég við einstakling í stjórn Hreyfils vegna gagna sem varðar öryggi farþega þeirra. Þeir kusu að horfa í hina áttina og vonast til þess að ég myndi með tímanum þegja.

Hreyfill hafði engan áhuga á að taka við neinum af þessum upplýsingum, ráku hann ekki fyrr en almenningur hafði samband eftir að ég talaði opinberlega um geranda minn, réttarkerfið og Hreyfil.

Þeir þurfa ekki að trúa mér. Þetta snýst ekki eingöngu um mig ef þeir halda það – hann náði mér, svo það er of seint að spá í því núna. Þetta snýst um að taka ábyrgð, vinna vinnuna sína, standa undir nafni og þjónustunni sem þeir auglýsa. Þetta snýst um öryggi farþega þeirra.

Hvers vegna Hreyfill vill ekki taka við gögnum og mynda sér skoðun út frá þeim er óskiljanlegt – eitthvað sem þeir einir geta svarað fyrir. Ef þetta eru vinnubrögðin sem þeir tileinka sér þá eru þeir ekki í neinni stöðu til að auglýsa örugga þjónustu. Þessi vinnubrögð hafa valdið því að fleiri þolendur urðu til, eitthvað sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Er ég þakklát eða fegin því að hann sé farinn frá Hreyfli? Já það er ég, ég er þakklát almenningi sem stóð upp fyrir mér og öðrum þolendum hans. Almenningi sem lét heyra í sér með þeim afleiðingum að þeir gátu ekki annað en látið hann fara. Til ykkar allra sem stóðuð og standið með okkur – takk! Stuðningur og samstaða ykkar síðustu daga hefur gefið mér meira réttlæti og stuðning en réttarkerfið og Hreyfill gerðu á 834 dögum.“

Í samtali við DV segir Aðalheiður: „Ég hef í dag fengið fjölda skilaboða frá konum vegna vinnubragða hjá Hreyfli.“

Segir gerandann með langa ofbeldissögu – Þolendur fleiri vegna aðgerðaleysis Hreyfils

Í samtali við DV segir Aðalheiður sinn geranda eiga langa sögu um ofbeldis, ekki bara gegn henni heldur fleiri þolendum. 

„Staðan er einfaldlega sú: Hreyfill á að bregðast við. Þeir neituðu að taka við gögnunum, þau sýndu því engan áhuga og þessi gögn snúa ekki einu sinni bara að mínu máli. Ég er bara með alls konar viðbjóð þar sem minn gerandi er að brjóta á almenningi án þess að almenningur veit af því. Þetta var grafalvarlegt mál sem einn af stjórnendum Hreyfils veit af, ég kom því áfram til Haralds Sigurðssonar, sem er forstjóri eða framkvæmdastjóri Hreyfils. Og mér er bara sagt að ég megi bóka fund ef ég vil. Þetta er ekki að taka ábyrgð á stöðunni og passa upp á öryggi farþega sinna.“

Enn skráður leigubílstjóri Hreyfils þrátt fyrir brottrekstur

Þrátt fyrir að gerandi Aðalheiðar hafi verið rekinn frá Hreyfli þann 30. september fékk hún upplýsingar um að hann hefði verið að keyra sem leigubílstjóri undir merkjum Hreyfils núna síðustu helgi (4. – 6. október). Segist hún hafa fengið ábendingu um að hann hefði verið að keyra í miðbæ Reykjavíkur og meðal annars tekið tvær ungar stúlkur sem farþega. Hann keyri með Hreyfilsmiðann í glugga bifreiðarinnar.

„Hann er að keyra í nafni Hreyfils sem er náttúrulega bara stranglega bannað. En af því hvernig lögin í þessu landi eru, þó hann sé rekinn frá Hreyfli þá getur hann núna bara farið á einhverja aðra stöð eða starfað sjálfstætt. Vonandi breytist þetta með því að sjálfstætt starfandi leigubílstjóri geti ekki lengur unnið. En þetta er bara staðan í dag. Og Samgöngustofa getur ekki tekið leyfið af bílstjóra nema það dómur fallinn gegn honum. Annars er Samgöngustofa bara kærð og eins og ég sagði áðan, ég er búin að vera í góðum samskiptum við Samgöngustofu. Þau vilja gera miklu meira, þau geta það ekki, hendur þeirra eru bundnar af ráðuneytinu sem er ekki að gera neinar lagalegar gáfulegar breytingar til að hjálpa þolendum. Þannig að staðan er svona núna.“

Bendir Aðalheiður á að kærur hennar hafi velkst um í kerfinu í nokkur ár, Samgöngustofa hafi ekkert getað aðhafst allan þann tíma. 

„Þannig að þeir fá bara að halda áfram í kerfinu. Að brjóta gegn fólki eins og minn gerandi gerði. Hreyfill hefði getað stigið inn ef þeir hefðu viljað fá gögnin mín og gögnin hjá öðrum konum sem þeir vildu ekki. Og minn gerandi getur núna bara verið að keyra áfram. Á heimasíðu Samgöngustofu er listi yfir leyfishafa. Hann er ennþá þar skráður hjá Hreyfli og leyfisnúmerið hans, þó hann hafi verið rekinn. Þannig að fólk heldur að það sé öruggt að taka hans bíl hjá Hreyfli.“

Blaðamaður fletti geranda Aðalheiðar upp á island.is í listanum: Listi yfir rekstrarleyfishafa í leigubílaakstri. Og þar er nafn hans skráð undir stöð Hreyfils og stöðvarnúmeri. Listinn var uppfærður 3. október síðastliðinn, það er þremur dögum eftir að hann var rekinn frá Hreyfli.

„Slóð geranda míns er löng og ógeðsleg og vegna aðgerðaleysis Hreyfils urðu þolendur hans fleiri. Eins og starfsemi leigubílstjóra er í dag gefur það starf gerendum greiðan aðgang að einstaklingum í viðkvæmri stöðu, til dæmis einstaklingum undir áhrifum um helgar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir ómaklegt að þrýsta á Samfylkinguna í máli rússnesku tvíburanna

Segir ómaklegt að þrýsta á Samfylkinguna í máli rússnesku tvíburanna
Fréttir
Í gær

Spáir rekstrarerfiðleikum fyrir easyJet og Wizz Air eftir fall Play og Braathens – Fækkar valkostum Íslendinga?

Spáir rekstrarerfiðleikum fyrir easyJet og Wizz Air eftir fall Play og Braathens – Fækkar valkostum Íslendinga?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mannýgur íkorni hefur sent tvær konur á spítala og ráðist á aðra þrjá – „Þetta er ekki brandari“

Mannýgur íkorni hefur sent tvær konur á spítala og ráðist á aðra þrjá – „Þetta er ekki brandari“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Afrískur konungur fjarlægður úr skógi í Skotlandi

Afrískur konungur fjarlægður úr skógi í Skotlandi