Stjórnarformaður flugfélagsins Ryanair spáir því að lággjaldaflugfélögin easyJet og Wizz Air muni eiga erfitt á komandi mánuðum. Tvö evrópsk lággjaldaflugfélög, Play og Braathens, hafa fallið á einni viku.
Michael O´Leary, stjórnarformaður írska flugfélagsins Ryanair, spáir því að flugfélögin easyJet og Wizz Air muni eiga í vandræðum á komandi mánuðum. Jafn vel að staða þeirra gæti orðið erfið fyrir jól.
O´Leary sagði þetta í viðtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera. Tilefnið voru erfiðleikar í flugrekstri lággjaldaflugfélaga í Evrópu sem leitt hafa til falls hins íslenska Play og hins sænska Braathens á aðeins einni viku.
Sagði O´Leary búast við því að fleiri flugfélög gætu lent í vandræðum á komandi mánuðum. Nefndi hann tvo risa í því samhengi, hið breska easyJet og hið ungverska Wizz Air.
Flugfélögin eru á meðal þeirra stærri í Evrópu, floti easyJet telur 347 vélar og Wizz Air 227 vélar. Bæði flugfélög fljúga til og frá Íslandi og hafa ferðir Wizz Air til Póllands verið nýttar mikið af pólska samfélaginu á Íslandi.
Ryanair er stærsta flugfélag Evrópu, með flota upp á 624 vélar, og Michael O´Leary hefur margsinnis valdið ókyrrð í flugheiminum með glannalegum ummælum sínum.
„Ég held líka að Wizz Air sé í vandræðum,“ sagði O´Leary. Því til stuðnings nefndi hann að félagið hafi fækkað áfangastöðum sínum að undanförnu. Þá hafi félagið lagt niður starfsemi sína í Abu Dhabi, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Sagði hann að easyJet væri ekki í jafn bráðri hættu en það væri samt hætt að vaxa. Það væru aðeins fáir áfangastaðir sem sköpuðu félaginu tekjur en ekki breitt net áfangastaða.
Ummæli O´Leary um Wizz Air eru ekki úr lausu lofti gripin. Eins og fram kemur í grein Metro féllu tekjurnar um 42 prósent á síðasta ársfjórðungi. Stór ástæða fyrir því voru vandræði með vélarnar. En hreyflaframleiðandinn Pratt & Whitney Geard Turbofan lenti í bilunum og þurfti að kyrrsetja um 20 prósent af flota Wizz Air. Þá hefur flugfélagið fækkað flugvélapöntunum sínum úr 47 í 15 vélar.
Eftir að Wizz Air lokuðu Abu Dhabi deildinni í sumar var slæmu veðurfari kennt um, sem og ólgu í alþjóðamálum sem hafi neytt flugfélagið til þess að fljúga lengri og óhagstæðari leiðir til áfangastaða sinna.
Þrátt fyrir þessi áföll þá er Wizz spáð 3,8 prósent hagnaði og margir búast við því að félagið geti spyrnt við fótum eftir endurskipulagninu.
En hvað með easyJet? Forstjóri félagsins, Andy Cockburn, hefur þegar brugðist við orðum O´Leary og hafnað því að félagið sé í vandræðum.
„Við sjáum nákvæmlega ekkert hæft í þessu,“ sagði Cockburn. „Við erum mjög einblínd á að framkvæma okkar stefnu, að starfa fyrir viðskiptavini okkar og ná markmiðum okkar.“
Vísaði easyJet til fyrirhugaðrar stækkunar á Heathrow flugvelli í London. Ætli félagið sér að fljúga frá þeim velli og stækka viðskiptavinahóp sinn.