Umdeildi sálfræðingurinn og rithöfundurinn Dr. Jordan Peterson „var nær dauða en lífi“ í sumar eftir að hafa verið lagður inn á gjörgæslu vegna alvarlegrar lungnabólgu og blóðeitrunar að sögn dóttur hans, Mikhailu Peterson.
Mikhaila birti myndband á YouTube þar sem hún fór yfir baráttu föður síns sem er 62 ára gamall. Segir hún hann hafa dvalið í gjörgæslu í tæpan mánuð og að síðustu mánuðir hafi verið „skelfilegir“ fyrir fjölskylduna.
„Hann hefur verið að þjást af óútskýrðum taugasjúkdómseinkennum í mörg ár,“ segir hún, og bætti við að nýjustu veikindin hefðu birst eftir „langvarandi bólgusjúkdóm sem við teljum stafa af myglusveppum“.
Peterson var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið í ágúst, sama dag og nýfædd dóttir Mikhailu var einnig flutt á sjúkrahús vegna annarra veikinda. Barnið hefur nú náð bata, en fjölskyldan lýsir reynslunni sem „eins og að horfa á hryllingsmynd í beinni“.
Peterson er nú kominn af gjörgæslu og er að skána dag frá degi, en óvíst er hvenær hann nær fullum bata. Dóttir hans segir meðferðina þó flókna þar sem hann þoli ekki flestar lyfjameðferðir.
Jordan Peterson varð heimsþekktur eftir að hafa gagnrýnt kanadískt frumvarp árið 2016 sem kvað á um að fólki sé skylt að ávarpa hvernig og einn út frá því hvernig sá skilgreinir sig. Þá varð metsölubók hans,12 Rules for Life, til þess að frægðarsól hans skein enn skærar. Hann hefur tvisvar haldið erindi hér á landi, árið 2017 og 2022.
Peterson hefur þó ítrekað þurft að hverfa af sjónarsviði vegna heilsuvanda, meðal annars eftir glímu við fíkn árið 2019.