
DV fjallaði um málið í vikunni.
Kom fram að Suzanne hefði verið á eigin vegum í ferðinni og stöðvaði skipið á fyrrnefndri eyju síðastliðinn laugardag.
Farþegar, 120 talsins, fóru í gönguferð upp á hæsta tind eyjunnar og skiluðu allir sér til baka nema Suzanne. Hvarf hennar uppgötvaðist ekki fyrr en skipið var farið frá eyjunni og fannst Suzanne látin á eyjunni á sunnudag. Grunur leikur á að hún hafi villst og dottið.
Skemmtiferðasiglingin átti að taka 60 daga og var Lizard-eyja fyrsta stopp skipsins.
Dóttir Suzanne, Katherine Rees, varpar ljósi á málið í samtali við The Australian og segir hún að Suzanne hafi orðið veik þegar hópurinn gekk á tindinn. Hún hafi verið beðin um að snúa við og fara aftur í skipið.
„Svo yfirgaf skipið eyjuna, að því er virðist án þess að telja farþegana um borð. Einhvern tíma á því tímabili, eða stuttu síðar, dó mamma ein,“ sagði hún.
Katherine segir að aðstandendur Suzanne séu miður sín vegna málsins og ljóst sé að eitthvað stórkostlegt hafi farið úrskeiðis.
Talið er að hvarf Suzanne hafi ekki uppgötvast fyrr en um kvöldmatarleytið á laugardag, eftir að hún skilaði sér ekki til kvöldverðar um borð. Þá voru fimm klukkustundir liðnar frá því að skipið lagði af stað frá Lizard-eyju.