Skiptum er lokið í búi athafnamannsins Radoslav Cabak sem úrskurðaður var gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands þann 14. apríl 2025. Lýstar kröfur í búið námu um 174 milljónum króna en samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í vikunni fundust engar eignir í búinu.
Radoslav, sem skráður er með heimili á Akranesi, rak tvö einkahlutafélög frá Grindavík á árum áður, Grindslov ehf. og Langhóll ehf. en hið síðarnefnda var utan um litla útgerð.
Skattrannsóknarstjóri hóf síðan rannsókn á rekstri félaganna, sem þá höfðu bæði verið úrskurðuð gjaldþrota, í byrjun árs 2020 vegna þess að brestur var á skilum af afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að félögin höfðu vanrækt skýrsluskil og að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti á tilskildum tíma og um sumarið var málinu vísað áfram til hérðassaksóknara sem gaf út ákæru í september.
Var Radoslav ákærður fyrir brot í rekstri félaganna tveggja og að ávinningurinn af brotunum hafi verið um 35 milljónir króna sem nýtt hafi verið í þágu félaganna og eftir atvikum hans eigin þágu.
Ári síðar, í september 2021, var Radoslav sakfelldur fyrir skattalagabrot. Hann hlaut tíu mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og gert að greiða 69,7 milljóna kr. sekt til ríkissjóðs.