Erlingur Sigvaldsson, frístundaráðgjafi og varaborgarfulltrúi Viðreisnar, lagði til styttinguna í pistli á Vísi í lok ágúst. Hann sagði meðal annars:
„Rannsóknir sýna að löng sumarfrí henta fáum og hjá stórum hluta barna og unglinga einkennast þau af rútínuleysi, skorti á félagslegri örvun, minni hreyfingu og fá einhverjir nemendur takmarkaðan aðgang að góðri næringu líkt og skólamötuneytin bjóða upp á […] Hver dagur þar sem þetta samfélag er sett á ís getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir barn. Það er ekki sjálfsagður hlutur að börn séu skráð á námskeið alla daga í sumarfrí og hvað þá að foreldrar séu í fríi og geti haldið úti dagskrá fyrir börnin sín. Það væri nefnilega einnig í þágu atvinnulífs ef að skóladögum fjölgaði, það er mikið lagt á foreldra að þurfa að búa til dagskrá og öruggt umhverfi í kringum barn og finna börn oft fyrir því að umstangið getur verið foreldrum erfitt.“
Sjá einnig: Erlingur vill stytta sumarfrí grunnskólabarna
Erlingur lagði til að stytta sumarfríið, sem var 76 dagar, um tvær vikur, en Einar er ósammála.
„Manni hálfbrá við þennan lestur því ef það er eitthvað sem við foreldrar þurfum ekki, þá er það minni tími með börnunum okkar,“ segir Einar.
„Sumarfrí eru ekki bara tími þar sem börn eru „í burtu frá skipulögðu skólastarfi“, sumarfrí eru tækifæri til að dýpka fjölskyldubönd, tækifæri sem aldrei koma aftur. Þegar barnið flytur að heiman efa ég að eitthvað foreldri líti til baka og hugsi: „Ah, ég vildi óska að sumarfrí barnsins hefðu verið styttri.“
Raunin er sú að þessir 76 dagar eru einstakt tækifæri til að kynnast börnunum sínum á annan hátt en í hröðu amstri vetrarmánaðanna. Í sumarfríunum fáum við að upplifa börnin okkar í slakara andrúmslofti, læra af þeim, ferðast með þeim og búa til minningar sem endast út lífið.“
Í stað þess að stytta sumarfríin segir Einar að við sem samfélag ættum frekar að spyrja okkur: „Hvað getum við gert til að styðja fjölskyldur betur í að nýta þennan tíma? Hvers vegna er úrræðum fyrir börn og fjölskyldur í sumarfríi þannig háttað að það skapar álag á foreldra frekar en að létta því?“
Hann segir að lausnin liggi ekki í því að stytta sumarfríið, heldur í því að efla aðgengileg sumarúrræði fyrir öll börn óháð fjárhag foreldra, gera vinnuveitendum kleift að sýna meiri sveigjanleika í sumarvinnutíma og efla samstarf sveitarfélaga, æskulýðs- og íþróttafélaga um fjölbreyttari og aðgengilegri sumarstarfsemi.
Einar vill sjá fjölskylduvænna samfélag á Íslandi. „Því er oft hent fram að á Íslandi sé ákveðið hamstrahjól og lífsgæðakapphlaup og er þessi tillaga um styttingu sumarfrís til þess fallin að auka enn frekar við þá upplifun,“ segir hann.
Lestu pistil hans í heild sinni hér.