„Þetta er útlitið á mánudagskvöldi, næstum viku fyrir tímann, og það er óáreiðanlegt, ýmislegt getur gerst í millitíðinni og það gerir það nú býsna oft,“ segir Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands, en hann eins og fleiri spáir blautri og vindasamri verslunarmannahelgi um allt land.
„En eins og staðan er núna þá lítur út fyrir að það verði suðaustan slagveðursrigning á laugardaginn um stærstan hluta landsins. Það er frekar hvasst í þessu og töluvert mikil rigning, það mikið að það rignir líklega eitthvað í öllum landshlutum en mest á sunnan- og vestanverðu landinu. Svo eftir þessu, síðla dags, kemur suðvestanátt með skúraveðri, frekar svölu veðri.“
„Á sunnudag og mánudag lítur út fyrir að hann verði suðlægur og það verði vætusamt nokkuð víða um land, þó mest sunnanlands og vestan. Ég ætla alls ekki að lofa þurru á norður- og austurlandi, alls ekki, það verður hins vegar líklega að jafnaði hlýjast á norðausturlandi og síst væta á þeim slóðum.“
Haraldur ítrekar að spáin geti breyst þegar nær dregur.