Eigandi vörubíls í Bústaðahverfi stóð bensínþjóf að verki í nótt en þjófurinn var að tappa díselolíu af bíl mannsins. Þjófurinn flýði af vettvangi og skildi eftir bílinn sinn. Eigandi vörubílsins er því með bíllykla mannsins í höndunum og í stuttri færslu á Facebook nafngreinir hann þjófinn og hvetur hann til að hafa samband við sig: „Hringdu ef þú vilt bíllyklana þína,“ segir hann.
Atvikið átti sér stað kl. 00:40 í nótt. Um er að ræða vörubíl með tengivagn en eins og meðfylgjandi mynd ber með sér skildi þjófurinn eftir brúsa og aftöppunarslöngu á vettvangi, auk bílsins síns og bíllyklanna.
„Ef hann vill fá bílinn sinn þá verður hann í sambandi,“ segir maðurinn í samtali við DV. Hann er ánægður með vinnubrögð lögreglu sem beitti drónum í leit sinni að þjófinum.
Vörubílseigandinn hefur hins vegar verið upptekinn við vinnu í dag og veit ekki hvernig rannsókn lögreglu hefur miðað. „Er búinn að vera að vinna í dag og hef ekki komist í þetta,“ segir hann. Hann segist búast við því að kæra en áður en hann tekur endanlega ákvörðun um það ætlar hann að heyra hljóðið í lögreglunni um málið.
Hann segir aðspurður að þjófurinn hafi ekki náð miklu eldsneyti af vörubílnum.
Vísir greindi frá málinu fyrr í dag og ræddi við Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem segir lögreglu hafa brugðist hratt við. Kemur þar fram að grunaður maður í málinu hafi verið handtekinn: „Við fáum laust fyrir klukkan eitt í nótt tilkynningu um að það sé verið að stela olíu af vörubifreið í Bústaðahverfinu nálægt Sprengisandi. Við förum náttúrlega í það um leið og þá náum við á einn aðila þarna sem var handtekinn.“ Telur Unnar að lögregla hafi brugðist mjög hratt við.
Unnar segir of snemmt að segja til um hvort þetta mál tengist stóru þjófnaðarmáli hjá Fraktlausnum en þjófar töppuðu um helgina hundruðum lítra af díselolíu af flutningabílum fyrirtækisins.
Þjófagengið sem var að verki hjá Fraktlausnum virðist hafa stolið plastbrúsum frá ónefndu gluggaþvottafyrirtæki fyrr í mánuðinum, en um var að ræða alls tíu vatnsbrúsa sem taka hver 2o lítra.