Maður sem rekur gluggaþvottafyrirtæki segist kannast við gengið sem stal hundruð lítrum af dísilolíu úr vörubílum á Héðinsgötu. Þeir hafi notað stolna brúsa frá honum við verknaðinn. Um sé að ræða fjölmennt gengi.
Fyrirtækjaeigandinn hafði samband við DV eftir að birtar voru fréttir af bíræfnum dísilolíuþjófnaði á plani flutningafyrirtækisins Fraktlausna við Héðinsgötu í Reykjavík. Telur hann að um sé að ræða sömu menn og stálu brúsum frá honum fyrir skemmstu.
Brúsunum var stolið þann 8. júlí síðastliðinn. Segir hann að mennirnir hafi tekið um tíu tuttugu lítra vatnsbrúsa. En þetta eru brúsar sem fyrirtækið þarf á að halda við að þrífa glugga.
„Morguninn eftir finnum við örfáa brúsa og þá förum við að skoða öryggismyndavélar,“ segir hann. Þá hafi verknaðurinn komið í ljós.
Fór hann í rannsóknarvinnu og notaði bílnúmerið á Skoda bíl sem notaður var við þjófnaðinn. Komst hann að því að téðri bifreið væri gjarnan lagt við ákveðna götu í miðborg Reykjavíkur, oft með 2 Wolt töskum inn í. Menn sem bílinn keyrðu væru til heimilis í kjallaraíbúð þar nálægt.
Fór svo að fyrirtækjaeigandinn ósátti bauð þeim birginn. „Svo er ég út að borða og er stopp á gatnamótum á rauðu og sé Skodann. Ég stoppa hann og spyr af hverju hann stal frá okkur,“ segir hann.
Hafi hann fengið símanúmerið frá þjófnum. Einnig loforð um að brúsunum yrði skilað degi seinna. Það gekk hins vegar ekki eftir og var slitið á samskiptin.
Þykir honum ljóst að brúsarnir hafi verið notaðir við dísilolíuþjófnaðinn á Héðinsgötu sem DV greindi frá í gær.
Fyrirtækjaeigandinn segist hafa leitað upplýsinga um þessa bíræfnu þjófa. Hafi hann fengið skilaboð frá fólki sem segi hegðun þeirra grunsamlega.
Hafi þeir sést á ferli um nætur, oft eftir klukkan 3:00. Eru þá oftar en ekki að bera gaskúta, bensínbrúsa og stórar og þungar íþróttatöskur á milli bíla. Sé um að ræða stóran hóp manna. Það er að minnsta kosti fimmtán manns.