Það var sjónvarpsmaðurinn Fannar Sveinsson sem leikstýrði umdeildri EXIT-auglýsingu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þetta kemur fram hjá Vísi. Hann starfar sem sjálfstætt starfandi leikstjóri og fékk þetta verkefni upp í hendurnar með stuttum fyrirvara. Það var svo strategíska samskipta- og hönnunarstofan Aton sem hafði umsjón með gerð auglýsingarinnar en sá sem sá um verkefnið er Gísli Árnason, eiginmaður Hildar Sverrisdóttur sem er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Í frétt Vísis segir:
„Eins og áður sagði reyndist auglýsingin talsvert umdeildari en Fannar hafði órað fyrir en það er Aton sem hafði umsjá með gerð auglýsingarinnar og sá sem annaðist verkefnið frá þeirra bæjardyrum er Gísli Árnason sem er eiginmaður Hildar Sverrisdóttur þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Er það ekki til að minnka flokkspólitískar tengingar vegna málsins.“
Gísli starfar sem ráðgjafi hjá Aton en á vefsíðu stofunnar segir í enskri lýsingu á reynslu hans að hann hafi veitt ráðgjöf bæði innan einka- og opinbera geirans, þar með talið til aðila innan fjármálaheims Íslands, orkuiðnaðar, stjórnmála og í sjávarútvegi. Sambærilega upptalningu er ekki að finna í íslenskri útgáfu textans.
Fannar hefur boðað framhaldsauglýsingu. Þar munu norsku leikararnir Jon Øigarden og Oddgeir Thune endurtaka hlutverk sín úr fyrri auglýsingunni en að sögn Fannars eru þeir að leika norska plebba. Framhaldsauglýsingin mun áfram skjóta á stjórnvöld fyrir að ætla sér að fara svokallaða norska leið í sjávarútvegsmálum. Aðkoma Øigarden kom einmitt landsmönnum sérstaklega spánskt fyrir sjónir þar sem hann fór með eitt aðalhlutverkið í norsku þáttunum EXIT sem fjölluðu um siðspillingu og græðgi útrásavíkinga.
Sjálfur segist Fannar varla hafa vitað hvað SFS er áður en hann tók að sér auglýsinguna og sjálfur hefur hann „engar sérstakar meiningar“ í sjávarútvegsmálum.