Fyrirtækið PPP sf. var stofnað árið 2011 af þeim Jóni Óttari Ólafssyni, afbrotafræðingi og lögreglumanni, og Guðmundi Hauki Gunnarssyni, lögfræðingi. Báðir störfuðu hjá embætti sérstaks saksóknara þegar fyrirtækið var stofnað en skömmu síðar létu þeir af störfum í skugga þungra ásakana. Þeir voru grunaðir um að hafa stolið gögnum frá embættinu og selt til þrotabúa.
Þetta fyrirtæki fékk Björgólf Thor Björgólfsson til að njósna um aðila sem komu að hópmálsókn gegn honum í tengslum við fall Landsbankans. Málið var tilefni mikilla deilna fyrir framan tjöld og fyrir aftan þau. Björgólfur var þó sannfærður um að hópmálsóknin væri skipulögð aðför gegn honum og í raun væri Róbert Wessman þar að baki.
Hann ætlaði að fá PPP til að sanna þessi tengsl og komast að því hvaða aðilar ættu þátt í hópmálsókninni.
Frá þessu greinir í Kveiki í kvöld sem byggir frétt sína á stórum gagnaleka sem RÚV hefur þegar boðið frekari fréttir úr.
Hefur Kveikur mikið af gögnum undir höndum, meðal annars myndbönd frá njósnunum, hljóðupptökur af fundum, vinnuskýrslur og margt fleira.
Fyrir þetta skráði PPP á sig um 850 vinnustundir og fékk, samkvæmt reikningum, um 33 milljónir greiddar fyrir verkið. Tímagjaldið var 22.500 kr.
Meðal annars var skrifstofa Landslaga vöktuð dögum saman þar sem PPP leigði sér bílaleigubíla og lagði fyrir utan til að vakta ferðir þeirra sem komu á skrifstofuna. Myndavél var falin í kókumjólkurfernu. Alls voru 9 bílaleigubílar
„Ég er bara mjög sleginn yfir þessu,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, fyrrum þingmaður sem átti hlut að málsókninni og var einn af fórnarlömbum njósnanna. Hann varð sérstaklega sleginn yfir því að PPP hafi fengið til liðs við sig starfandi lögreglumann, varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem nú hefur verið leystur frá vinnuskyldu vegna málsins.
„Það er nú ekki með vitund yfirmanna hans í löggunni sko,“ má heyra Jón Óttar segja á einni upptökunni.
Umræddur varðstjóri heitir Lúðvík Kristinsson, en af vinnuskýrslum PPP má ráða að hann hafi unnið á sjötta tug vinnustunda PPP, gjarnan samhliða vöktum sínum hjá lögreglunni.
Njósnirnar voru umfangsmiklar og voru tilteknir aðilar eltir á röndum. Til dæmis í tilfelli Vilhjálms Bjarnasonar voru allar ferðir hans skráðar, jafnvel morgunferðir hans í sund.
Hópmálsókninni lauk í lok árs í fyrra en þá náðust sættir þar sem Björgólfur samþykkti að borga hluthöfunum ef þeir féllu frá málshöfðuninni, án þess að gangast við ásökunum hópsins eða taka nokkra ábyrgð á starfsemi eða falli Landsbankans. Um áramótin hafði hann klárað að greiða rúmlega milljarð í sáttagreiðslu til allra hluthafanna í hópmálsóknarfélaginu, nema Róberts Wessmans.
Björgólfur virðist hafa talið að hópmálsóknarfélagið í málinu hafi verið blekking. Þetta væru allt strengjabrúður erkifjandans Róberts Wessmans. Þetta ætlaði Björgólfur að sanna og komast að því hvaðan hópurinn hefði fengið gögnin sem málsóknin grundvallaðist á.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áðurnefndur Jón Óttar Ólafsson er vændur um njósnir. Hann varð frægur fyrir nokkrum misserum fyrir störf sín sem ráðgjafi Samherja þegar hann var sakaður um að hafa átt í samskiptum við mútuþegana í Namibíumálinu og fyrir að hafa áreitt blaðamanninn Helga Seljan, eins og frægt er orðið.
Umfjöllun Kveiks þykir nokkuð sláandi en þar er meðal annars rætt við Vilhjálm Bjarnason, sem var andlag njósnanna, sem þótti ljóst að þarna hafi átt að safna um hann gögnum svo hægt væri að hóta honum.
Lögmaðurinn og fyrrum hluthafi Landsbankans, Ólafur Kristinsson, var einnig þolandi njósnanna. Hann segir málið skuggalegt en margt bendir til þess að njósnararnir hafi jafnvel farið inn í húsnæði við heimili fjölskyldu hans.
„Þetta er rosalegt, óhugnanlegt. Að það sé verið systematískt að fylgja manni eftir hér og þar! Einn til þrír menn á hverjum tíma að elta mann! Ég efast um að lögreglan sé með svona eftirlit með glæpamönnum. Það er eins og þeir séu að reyna að finna eitthvað á mann, maður sé að gera eitthvað sem er ólöglegt.“
Tengiliður PPP við Björgólf var lögmaðurinn Birgir Már Ragnarsson, sem í dag er einn af auðugri mönnum landsins en á þessum tíma starfaði hann sem högri hönd Björgólfs og var framkvæmdastjóri Novators. Á einni upptöku má heyra Birgi ræða við PPP þar sem talið berst að greiðslu fyrir njósnirnar og spyr Birgir þá hvort það sé í lagi að greiðandi sé erlent fyrirtæki. Þar var hann að vísa til aflandsfélags í eigu Björgólfs sem var meðal annars móðurfélag Novators og eigandi einkaþotu auðmannsins. Þegar Kveikur hafði samband við Birgi bar hann við minnisleysi.
Jón Óttar neitaði sömuleiðis að tjá sig, en þáverandi samstarfsmaður hans, Guðmundur, er látinn. Eins neitaði lögreglumaðurinn Lúðvík að tjá sig.
Björgólfur brást ekki við óskum Kveiks um viðbrögð.
Nánar má lesa um málið í ítarlegri afhjúpun Kveiks.
Fréttin hefur verið uppfærð