Kærunefnd jafnréttismála hefur kveðið upp úrskurð í kærumáli manns sem starfaði áður hjá fyrirtækinu Grímsborgir ehf. en manninum hafði verið sagt upp störfum. Vildi maðurinn meina að ástæðan fyrir uppsögninni hefði verið þjóðernisuppruni hans og einnig að á þeim tíma hefði sambýliskona hans, sem líka starfaði hjá fyrirtækinu, verið ólétt og þau því bæði á leiðinni í fæðingarorlof. Nefndin tók hins vegar ekki undir það með manninum að þetta hefðu verið orsakir þess að honum var sagt upp störfum og sagði málefnalegar ástæður hafa legið þar að baki.
Grímsborgir reka meðal annars samnefnt hótel og veitingastað á samnefndu svæði í Grímsnesi á Suðurlandi en á síðasta ári, eftir að manninum hafði verið sagt upp, tók Keahótel við rekstrinum.
Maðurinn kærði uppsögnina í janúar 2023.
Hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2019 en var sagt upp í lok ágúst 2022 og lauk störfum í lok nóvember sama ár. Sambýliskona mannsins starfaði einnig hjá fyrirtækinu og gekk á þessum tíma með barn þeirra. Vildi maðurinn meina að það bryti í bága við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um jafnan rétt á vinnumarkaði að segja honum upp þegar kona hans væri ólétt.
Fyrirtækið gaf þær skýringar í uppsagnarbréfinu að um væri að ræða skipulagsbreytingar og þar að auki hefði bókunum á hótelinu fækkað.
Maðurinn fullyrti í kærunni að honum og konu hans hefði verið tjáð af öðrum eiganda fyrirtækisins að uppsögnin væri til komin vegna þess að hún væri ólétt en ekki mætti segja henni upp á meðan það ástand varði. Taldi maðurinn einnig líklegt að þjóðernisuppruni hefði haft sitt að segja.
Maðurinn sagði uppgefnar ástæður í uppsagnarbréfinu vera fyrirslátt. Hann sagði að nýir kokkar hefðu verið ráðnir til fyrirtækisins eftir að honum var sagt upp. Það væri einnig fásinna sem fyrirtækið héldi fram að hann kynni ekki að framreiða svokallaðan a la carte matseðil það hefði hann svo sannarlega gert í störfum sínum.
Eftir því sem fréttamaður DV kemst næst þýðir a la carte í meginatriðum það að hægt sé að panta af matseðli einstaka rétti sem eru verðlagðir á mismunandi hátt.
Maðurinn sagði sömuleiðis að þar sem hann sé af erlendu bergi brotinn megi leiða að því líkur að þjóðernisuppruni hafi spilað inn í ákvörðun um uppsögn hans, enda ólíklegt að innlendum starfsmanni yrði sagt upp við sömu kringumstæður.
Vildi maðurinn meina að hann hefði þar með orðið fyrir fjölþættri mismunun.
Grímsborgir höfnuðu alfarið ávirðingum mannsins og sögðu uppruna hans og þá staðreynd að hann og kona hans hefðu átt von á barni hefði ekkert haft með uppsögnina að gera.
Minnti fyrirtækið á að sé alþekkt að hótelstarfsemi á Íslandi sveiflist talsvert eftir árstíðum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Háannatími ferðaþjónustunnar sé yfir sumarmánuðina og starfsmannafjöldi í hámarki en þegar bókunarstaðan lækki á haustin og veturna kalli slíkar rekstraraðstæður á einhverja fækkun starfsfólks.
Sagði fyrirtækið að á sama tíma og manninum var sagt upp hefðu 40 manns starfað þar. Meirihlutinn af öðrum uppruna en íslenskum. Haustið 2022, þegar manninum var sagt upp, hafi samtals 15 manns látið af störfum sem annaðhvort var sagt upp eða voru ekki endurráðnir þegar tímabundnu starfstímabili þeirra lauk.
Uppsögn mannsins hafi fyrst og fremst mátt rekja til slæmrar bókunarstöðu.
Maðurinn hafi verið meðal þeirra sem sagt var upp vegna þess að hann hefði starfað við framleiðslu á morgunverði og væri ófaglærður sem kokkur eins og títt væri um slíkt starfsfólk. Manninum hefði skort menntun og reynslu til að starfa við framleiðslu á a la carte matseðli en veitingastaðir Grímsborga framreiði nær eingöngu a la carte rétti. Maðurinn hefði verið einn þriggja starfsmanna í morgunverðarframleiðslunni sem hefði fengið uppsagnarbréf á þessum grundvelli. Annar hinna tveggja hafi verið af íslenskum uppruna en hinn erlendum.
Grímsborgir höfnuðu því alfarið að hafa mismunað manninum. Fyrirtækið fullyrti að annar eigenda fyrirtækisins hefði aldrei tjáð manninum og konu hans að ólétta hennar væri helsta ástæða uppsagnarinnar eins og þau fullyrtu. Það væri heldur ekki rétt að nýir kokkar hefðu verið ráðnir eftir að honum var sagt upp heldur hefðu viðkomandi verið ráðnir sem verktakar til að elda fyrir einstaka fjölmennar veislur. Maðurinn hefði enn fremur ekki framvísað neinum gögnum til að sanna fullyrðingar sínar.
Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála segir að það brjóti gegn lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna að segja starfsmönnum upp á þeim grundvelli að viðkomandi og maki hans eigi von á barni. Það gangi hins vegar ekki gegn lögunum að segja fólki í slíkri stöðu upp sé það gert á grundvelli annarra ástæðna en þeim sem tengist hinu komandi barni.
Grímsborgir hafi framvísað gögnum um bókunarstöðu sína á árunum 2022-2023 sem renni stoðum undir að nauðsynlegt hafi verið að fækka starfsfólki og endurskipuleggja reksturinn í ljósi minnkandi tekna.
Það hafi ekki heldur verið upplýst neitt frekar um hið meinta samtal mannsins og eigandans sem hinn fyrrnefndi fullyrti að hefði snúist um að honum hefði verið sagt upp vegna óléttunnar.
Nefndin vísaði einnig til þess að fyrir lægi að maðurinn væri einn af samtals 15 starfsmönnum sem misst hefðu starf sitt um þetta leyti.
Því var ekki fallist á að uppsögnin hefði ekki byggt á málefnalegum sjónarmiðum og því hafnað að um mismunun og brot á lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna og jafna stöðu á vinnumarkaði hefði verið að ræða.