fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Fréttir

Guðrún minnir lækna á að alnæmi sé ekki dautt úr öllum æðum – Marga mánuði tók að greina það hjá tveimur íslenskum konum

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 6. nóvember 2024 19:00

Ljósmynd: DV/Hanna. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir ritar pistil í nýjasta tölublað Læknablaðsins. Í pistlinum er heilbrigðisstarfsfólk og einkum læknar hvatt eindregið til þess að vera betur vakandi fyrir greiningu á HIV-smitum en tilefni pistilsins er fræðigrein í sama blaði um tilfelli tveggja íslenskra kvenna sem greindust nýlega með alnæmi í kjölfar þess að þær smituðust af HIV. Margra mánuði tók að greina konurnar en á meðan þróuðust smitin út í alnæmi og þær fengu báðar alvarlega fylgikvilla. Í greininni er því velt upp að aukinn áhugi meðal Íslendinga á makaskiptum og fjölkærum samböndum geti valdið aukinni hættu á HIV-smiti.

Lítið hefur borið á umræðum um alnæmi á síðustu árum ólíkt því sem var á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og hefur það ekki verið síst rakið til þess að lyfjameðferð hefur verið þróuð til að halda veirunni í skefjum í þeim sem smitaðir eru af henni. Guðrún minnir þó í pistlinum á að tilfelli kvennanna tveggja sé þörf áminning til heilbrigðisstarfsfólks að vera betur á verði gagnvart veirunni ekki síst eins og í þessum tilfellum þar sem engir augljósir áhættuþættir fyrir smiti hafi verið til staðar hjá konunum.

Margir mánuðir

Guðrún vitnar í fræðigreinina sem rituð er af Katrínu Hólmgrímsdóttur læknanema og læknunum Sæmundi Rögnvaldssyni, Telmu Hrund Ragnarsdóttur og Ernu Milunka Kojic.

Konurnar voru 46 ára og 31 árs þegar þeim var vísað á Landspítalann eftir margra mánaða samskipti við lækna. Heilsu þeirra beggja hafði þá hrakað mjög og voru þær með ýmis einkenni. Þær höfðu báðar orðið fyrir þyngdartapi og voru með skýr einkenni um bólgur og sýkingar.

Þegar eldri konan kom á Landspítalann hafði hún í sex mánuði verið með ýmis einkenni sem höfðu farið versnandi meðal annars þróttleysi, hita, höfuðverk, hósta með grænum uppgangi, dreifða lið- og vöðvaverki, stöðugan vatnskenndan niðurgang, lystarleysi og hafði einnig misst 14 kíló. Konan var einnig með langvinna bólgu, sveppasýkingu í vélinda, eitlastækkanir og hafði verið sett á lugnabólgumeðferð vegna hélubreytinga í lungum. Hún hafði einnig í sinni sjúkrasögu endurtekna keiluskurði vegna hááhættu HPV-sýkingar í leghálsi. Þegar hún kom á bráðadagdeild Landspítalans höfðu einkennin frá öndunarfærunum farið versnandi. Loks var tekið HIV-próf sem reyndist jákvætt og var konan í kjölfarið greind með alnæmi.

Yngri konunni var vísað á bráðadagdeild Landspítalans vegna versnandi einkenna sem höfðu hrjáð hana í sex mánuði og hafði hún ítrekað leitað til lækna á þessu tímabili. Einkennin voru meðal annars slappleiki, úthaldsleysi, mæði, hraður hjartsláttur, hiti, hósti, takverkur, vöðvaverkir, lystarleysi og þyngdartap. Konan var með í sinni sjúkrasögu hááhættu HPV-sýkingu í leghálsi og klamydíusmit. Í fyrstu komu konunnar á dagdeild var hún send heim eftir að súrefnismettun hennar fór batnandi en hún kom aftur viku síðar og reyndist þá bráðveik, stóð illa undir sér, var móð, með lága súrefnismettun og í bráðri öndunarbilun. Tölvusneiðmynd af lungnaslagæðum sýndi að bæði lungu voru alsett hélubreytingum en í greininni kemur fram að lungu eldri konunnar hafi verið í sams konar ástandi. Sneiðmyndin hjá yngri konunni vakti grun um lungnabólgu sem rekja mætti til HIV-smits og staðfesti próf það. Eins og hjá eldri konunni var smitið það útbreitt að konan var greind með alnæmi. Hún veiktist það alvarlega að hún þurfti á gjörgæslumeðferð að halda í marga daga.

Vera vakandi

Guðrún Aspelund tekur undir það með höfundum greinarinnar að HIV sé of neðarlega á listum yfir greiningar heilbrigðisstarfsfólks. Þó ákveðnir áhættuþættir auki líkur á smiti þá geti allir smitast. Þar sem konurnar hafi ekki verið með augljósa áhættuþætti, þá hafi það ekki hvarflað að þeim læknum sem þær leituðu til yfir margra mánaða tímabil að þær gætu verið smitaðar af HIV-veirunni. Þröskuldur fyrir að prófa fyrir HIV-smiti ætti að vera lægri, benda bæði greinarhöfundarnir og Guðrún á. Konurnar eru hvorugar vímuefnaneytendur sem hefði aukið líkurnar á smiti en þó er algengasta smitleið HIV á Íslandi óvarðar samfarir. Fram kemur í greininni að konurnar voru báðar fæddar og uppaldar á Íslandi, eru mæður og í langtíma samböndum með íslenskum mönnum. Skömmu áður en þessar upplýsingar koma fram segir hins vegar í greininni:

„Í íslensku samfélagi hefur verið aukin umræða um fjölkær sambönd og „swing“, það getur meðal annars falið í sér að pör skiptist á mökum til samfara, hópsamfarir og fleira, en fjöldi bólfélaga getur verið áhættuþáttur fyrir kynsjúkdóma, þar meðtalið HIV.“

Greinarhöfundar tengja þó slíkt ekki við konurnar tvær en segja tilfelli þeirra áminningu um það að HIV-veiran sé til staðar í íslensku samfélagi, allir geti smitast af henni og vanmat á hættunni sem stafi af veirunni geti haft alvarlegar afleiðingar.

Eins og áður segir voru smit kvennanna tveggja ómeðhöndluð það lengi að þær voru greindar með alnæmi. Eftir greininguna tókst að uppræta lugnabólgu og sveppasýkingu í vélinda hjá þeim báðum og hljóta þær nú lyfjameðferð sem hefur skilað þeim árangri að hvorug þeirra er með alnæmi lengur og magn veirunnar í líkama þeirra hefur minnkað verulega.

Ákall

Einnig er áréttað í greininni að hafi einstaklingur greinst, eins og önnur kvennanna, með annan kynsjúkdóm ætti að gera HIV-próf á viðkomandi. Guðrún Aspelund tekur undir það og segir tilfelli kvennanna vera ákall til lækna um að vera vakandi fyrir HIV-smiti hjá öllum:

„Varast þarf fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hver getur hafa smitast af HIV og almennt eigum við að hafa lágan þröskuld fyrir að framkvæma HIV-próf. Eins og höfundar benda á er tímanleg greining mikilvæg og meðferð við HIV öflug svo enginn ætti að fá alnæmi á Íslandi í dag,“ segir Sóttvarnalæknir að lokum.

Pistil Guðrúnar í heild sinni er hægt að nálgast hér og grein Katrínar, Sæmundar, Telmu og Ernu er að finna hér.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ólafur varar við samstarfi við Ingu Sæland – „Krefst árásar á félagsmenn lífeyrissjóða“

Ólafur varar við samstarfi við Ingu Sæland – „Krefst árásar á félagsmenn lífeyrissjóða“
Fréttir
Í gær

Hannes gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu harðlega: „Ég veit ekki á hvaða ferðalagi hún er“

Hannes gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu harðlega: „Ég veit ekki á hvaða ferðalagi hún er“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tónlistarflytjendurnir sem fá listamannalaun 2025

Tónlistarflytjendurnir sem fá listamannalaun 2025
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári hefur ekki trú á að stjórnarmyndunin takist – „Ég býst við að Samfylkingarfólk sé að vakna upp við þessa stöðu núna“

Gunnar Smári hefur ekki trú á að stjórnarmyndunin takist – „Ég býst við að Samfylkingarfólk sé að vakna upp við þessa stöðu núna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örvæntingarfull leit að lottóvinningshafa – Milljarðar renna honum úr greipum á laugardag

Örvæntingarfull leit að lottóvinningshafa – Milljarðar renna honum úr greipum á laugardag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýr meðferðargangur opnaður á Litla Hrauni

Nýr meðferðargangur opnaður á Litla Hrauni