Tveir fyrrverandi stjórnendur félagsins Megna ehf., sem áður hét Glerborg, hafa verið ákærðir fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum í rekstri félagsins.
Meint brot ná yfir rekstrarárin 2020 og 2021. Þeir félagar eru sakaðir um að hafa ekki staðið skil á greiðslu virðisaukaskatts upp á rúmlega 45 milljónir króna.
Einnig eru þeir sakaðir um að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna fyrirtækisins. Nema þessi vanskil um 52 og hálfri milljón króna. Nema meint skattsvik í heild tæplega 100 milljónum króna.
Glerborg var stofnuð árið 2004 samkvæmt upplýsingum í fyrirtækjaskrá Skattsins. Nafni fyrirtækisins var breytt í Megna ehf. og undir því nafni varð fyrirtækið gjaldþrota árið 2021. Þetta var stórt gjaldþrot því lýstar kröfur í búið námu 427,5 milljónum króna. Fékkst upp í 10,68% af lýstum kröfum og nam sú úthlutun yfir 45 milljónum króna, eða 45.648.390 kr.
Málið gegn stjórnendunum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. júní. Héraðssaksóknari krefst þess að þeir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaður. Algengar refsingar í viðlíka málum eru skilorðsbundið fangelsi og háar fjársektir.