Hið litla samfélag upptöku og tækni í framleiðslugeiranum titrar vegna alvarlegs kynferðisbrotamáls sem tengist tveimur bræðrum og dóttur annars þeirra. Maður sem hefur starfað sem tæknistjóri á vegum framleiðslufyrirtækis var kærður fyrir að nauðga bróðurdóttur sinni fyrir tæpum tveimur árum og málið er nú hjá saksóknara.
Fyrirtækið hefur meðal annars séð um útsendingar fyrir RÚV og Sýn, við ýmsa íþróttaviðburði og Söngvakeppni Sjónvarpsins svo dæmi séu tekin.
Bróðir mannsins, og faðir meints þolanda í málinu, hefur einnig starfað sem tæknistjóri í verktöku fyrir RÚV og Sýn. Undanfarið hefur hinn meinti gerandi fengið fleiri útsendingaverkefni hjá RÚV og Sýn en faðir hins meinta þolanda fengið sífellt færri.
Samvæmt kærunni átti brotið sér stað fyrir um tveimur síðan á ferðalagi í Bandaríkjunum. Stúlkan var þá 22 ára gömul en hann tæplega fertugur. Stúlkan kærði málið til lögreglu eftir að hún kom heim, í ágústmánuði árið 2022.
Málið fékk flýtimeðferð hjá lögreglu og lauk rannsókninni um haustið. Var málið sent til héraðssaksóknara í janúar 2023 og er það núna í vinnslu á ákærusviði.
Málið hefur valdið gríðarlegum titringi innan framleiðslu og upptökugeirans. Ekki aðeins vegna hins alvarlega brots sem manninum er gefið að sök heldur einnig vegna þess að faðir stúlkunnar og bróðir hans starfar í sama geira, sem er eins og gefur að skilja frekar lítill á Íslandi.
Þegar litið er yfir starfsmannalistann á heimasíðu framleiðslufyrirtækisins sést að nafn mannsins var þar til ársins 2022. Eftir það hefur nafn hans ekki verið á starfsmannalistanum. Hins vegar er hann titlaður sem tæknistjóri fyrirtækisins í lokatitlum (credit-lista) útsendinga og er því augljóslega enn á að vinna á vegum fyrirtækisins.
DV leitaði til eiganda framleiðslufyrirtækisins til að spyrja hvers vegna maðurinn væri að starfa á þeirra vegum en vildi hann ekki tjá sig um málið.
Titringurinn nær einnig inn í tvö stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins, RÚV og Sýn, þar sem faðir stúlkunnar hefur starfað sem sjálfstætt starfandi tæknistjóri í útsendingum. Hann segist hins vegar fengið sífellt færri verkefni á meðann bróðir hans hefur fengið fleiri hjá þessum fjölmiðlarisum.
DV ræddi við föðurinn sem segir að yfirmenn fjölmiðlanna hafi verið látnir vita af þessu máli, sem og yfirmenn Knattspyrnusambands Íslands og Handknattleikssambands Íslands. Segist hann hafa látið þá vita að hann gæti ekki unnið á sama tíma og bróðir hans.
Missti hann verkefnin hjá RÚV eftir að hann lét vita af þessu en bróðir hans heldur áfram að starfa í útsendingum, meðal annars Söngvakeppninni.
Til að byrja með hafi Sýn staðið með föðurnum en það hafi breyst eftir að Sýn gerði samning við Viaplay. Þá bættust við íþróttaútsendingar, svo sem hjá karlalandsliðinu í fótbolta.
Að sögn föður stúlkunnar hefur bróðirinn síðan þá fengið sífellt fleiri verkefni, í innlendri knattspyrnu og körfubolta sem dæmi. Á meðan fær hann sífellt færri verkefni.
DV leitaði til RÚV og Sýnar til að spyrjast fyrir um hvers vegna þessi maður væri að starfa í útsendingum þeirra og um þá árekstra sem þetta veldur. Bæði fyrirtæki báru fyrir sig að maðurinn væri ekki starfsmaður þeirra heldur verktaka.
„Fyrirspurn þín snýr að einstaklingi sem hvorki er starfsmaður né verktaki hjá RÚV. Samkvæmt því sem fram kemur í þinni fyrirspurn er hlutaðeigandi starfsmaður hjá tilgreindu fyrirtæki, sem RÚV hefur keypt þjónustu af í tengslum við framleiðslu á sjónvarpsefni. Að öðru leyti getum við ekki tjáð okkur um samskipti okkar við fyrirtæki um málefni sem snerta einstaka starfsmenn þess,“ segir Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri í skriflegu svari við fyrirspurn DV.
Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður íþróttadeildar Stöðvar 2, segir að Sýn geti gert athugasemdir við starfsfólk verktaka en almennt séð sé stefnan sú að ef verktaki skaffi starfsfólk sem er hæft til vinnu þá eru ekki gerðar athugasemdir við það.
„Við erum ekki í beinu ráðningasambandi við hann. Hann er verktaki hjá fyrirtæki sem við erum með langtímaleigusamning við. Þar óskum við eftir ákveðinni þjónustu, bæði í tækjabúnaði og starfsfólki. En við erum ekki að óska eftir ákveðnum einstaklingum þar,“ segir Eiríkur.