Vilhjálmur gerir andstöðu oddvita Sjálfstæðisflokksins við fríar skólamáltíðir að umtalsefni á Facebook-síðu sinni en hátt í 30 oddvitar flokksins skrifuðu harðorða grein í Morgunblaðið í gær þar sem þeir gagnrýndu þetta.
Vilhjálmur segir í pistli á Facebook-síðu sinni að sem betur fer séu langflest sveitarfélög sem hafi lýst því yfir að þau muni taka fullan þátt í að uppfylla loforð um gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með ágúst næstkomandi og þar að auki lækka gjaldskrár sínar niður í 3,5% hvað barna- og fjölskyldufólk varðar.
„Rétt er að geta þess að forsenda fyrir nýjum kjarasamningum er aðkoma stjórnvalda og sveitarfélaga enda ljóst að aldrei hefði verið hægt að ganga frá langtímakjarasamningi nema með góðri og tryggri aðkomu þeirra,“ segir Vilhjálmur og bætir við að framferði sveitarstjórnarmanna Sjálfstæðisflokksins sé að ógna þeirri launastefnu sem mörkuð var.
„Ég trúi því alls ekki að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætli að stuðla að því að leggja stein í götu þeirra markmiða sem þessir kjarasamningar eiga að skila. Markmiða sem lúta að því að skapa fyrirsjáanleika með fjögurra ára kjarasamningi sem hefur það markmið að ná hér tökum á verðbólgu og skapa hér skilyrði fyrir skarpri vaxtalækkun á komandi mánuðum. Vaxtalækkun sem mun skila sér í gríðarlegum ávinningi, ekki bara fyrir launafólk og heimili heldur einnig fyrir fyrirtæki, ríki og síðast en ekki síst sveitarfélögin sem eru stórskuldug. Já, þetta framferði fulltrúa sumra sveitarstjórnarmanna innan Sjálfstæðisflokksins er óskiljanlegt miðað við þann ávinning sem þessi kjarasamningur mun skila fyrir samfélagið í heild sinni.“
Vilhjálmur vill halda því til haga að ávinningur sveitarfélaga af þeirri launastefnu sem er verið að marka sé gríðarlegur.
„Sveitarfélögin eru að greiða 294 milljarða í laun og launatengd gjöld á ári og samkvæmt fjármálaáætlun sveitarfélaganna var gert ráð fyrir að laun væru að hækka um frá 8-9% en kostnaðarmat nýgerðra kjarasamninga er í kringum 4%. Því má hæglega áætla að ávinningur sveitarfélaganna nemi um 13 milljörðum á þeirri launastefnu sem nú hefur verið mörkuð ef hún flæðir yfir opinbera markaðinn.“
Vilhjálmur segir að þá sé ótalinn allur ávinningurinn af því ef verðbólga gengur niður og vextir lækka. Bendir hann á að sveitarfélögin skuldi 527 milljarða og 2,5% lækkun vaxta mun þýða í kringum 13 milljarða lækkun á fjármagnskostnaði.
„Á sama tíma og þessi ávinningur blasir við eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að „röfla“ yfir fríum skólamáltíðum sem kosta sveitarfélögin um 1,2 milljarð og þar af er Reykjavíkurborg með 500 milljónir.“
Vilhjálmur segir að flest sveitarfélög muni efna þetta loforð um gjaldfrjálsar skólamáltíðir enda hafi Framsókn, Samfylkingin og Vinstri grænir á sveitarstjórnarstiginu lýst yfir fullum stuðningi við þann aðgerðapakka sem lýtur að aðkomu sveitarfélaga til stuðnings samningunum.
„Einu aðilarnir sem hafa verið að höggva í aðkomu sveitarfélaga til stuðnings samningunum eru eins og áður sagði fulltrúar tengdir Sjálfstæðisflokknum. Þess ber þó að geta að Sjálfstæðisflokkurinn í Ríkisstjórn Íslands samþykkti fríar skólamáltíðir eins og kveðið er á um í yfirlýsingu stjórnvalda.“
Vilhjálmur segir að miðað við þann titring sem ríkir á sveitarstjórnarstiginu hjá Sjálfstæðismönnum sé ljóst að verkalýðshreyfingin í heild sinni þarf að verja sig fyrir því ef einstök sveitarfélög ætla ekki að uppfylla það loforð sem hreyfingunni hefur verið gefið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og lækkun á gjaldskrám.
„Sú vörn mun birtast í því að þegar samið verður við Samband íslenskra sveitarfélaga mun verða skýrt kveðið á um í forsenduákvæði að ef einstök sveitarfélög muni ekki vera búin að uppfylla gjaldfrjálsar skólamáltíðir í ágúst sem og lækka hjá sér gjaldskrár niður í 3,5% er lúta að barna- og fjölskyldufólki, þá muni kjarasamningur gagnvart þeim sveitarfélögum vera laus í febrúarlok 2025. Þetta er það eina sem við getum gert til að verjast því ef einstök sveitarfélög ætla að víkja sér undan sinni ábyrgð.“
Vilhjálmur þakkar að endingu forsætisráðherra og stjórnvöldum fyrir góða samvinnu við gerð þess aðgerðapakka sem kynntur hefur verið til stuðnings kjarasamningnum.
„Aðgerðapakka sem metinn er á 80 milljarða króna eða um 20 milljarða á ári á samningstímanum. Aðgerðapakka sem mun auka ráðstöfunartekjur fjölskyldufólks umtalsvert í gegnum barnabætur, húsnæðisbætur og aðra þætti. Án aðkomu stjórnvalda hefði aldrei verið hægt að ganga frá þessum kjarasamningi með þessum hætti, kjarasamningi sem hefur það markmið að ná niður verðbólgu, lækka vexti og auka þannig ráðstöfunartekjur launafólks og heimila umtalsvert. Einnig mun þetta skila góðum ávinningi til fyrirtækja, ríkissjóðs og sveitarfélaga ef markmiðin ná fram að ganga og því er andstaða fulltrúa Sjálfstæðismanna á sveitarstjórnarstiginu mér gjörsamlega óskiljanleg.“