Þetta segir Sigurður Kári í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Nú hafa stjórnvöld kynnt aðgerðir í þágu Grindvíkinga. Þeim er ætlað að koma til móts við kröfur um uppkaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Þær munu koma til viðbótar við þá vernd sem NTÍ veitir,“ segir hann í grein sinni og bætir við að hvernig sem aðgerðirnar munu reynast sé nauðsynlegt að draga lærdóm af atburðunum í Grindavík.
„Þegar er ljóst að hamfarirnar munu ganga nærri sjóðum NTÍ. Í kjölfarið er nauðsynlegt að fjármögnun NTÍ verði tryggð svo stofnunin geti staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni, því sagan mun endurtaka sig,“ segir hann en umræddur sjóður, Þjóðarsjóður eins konar, mætti nýta þegar tjón verður sem hvorki hefðbundnar vátryggingar né náttúruhamfaratryggingar bæta.
Bendir Sigurður Kári á í grein sinni að náttúruhamfaratryggingar bæti ekki tjón sem ekki hefur orðið. Þannig hafi hluti húsa í Grindavík ekki orðið fyrir skemmdum en standa á svæði sem færustu sérfræðingar telja ekki búandi á.
„Mismunandi skoðanir kunna að vera uppi um hvort þau lög sem um NTÍ gilda leiði til bótaréttar eigenda þeirra og upp að hvaða marki. Allt hefur þetta valdið óvissu. Sú óvissa hefur eðlilega valdið óöryggi, jafnvel reiði, sem er skiljanlegt við þessar aðstæður,“ segir hann meðal annars.
Í ljósi þessa segir Sigurður að nauðsyn Þjóðarsjóðs blasi við nú þegar nauðsynlegt þykir að ráðast í uppkaup á fjölda fasteigna í Grindavík sem ekki er víst að fáist bættar, í stað þess að fjármagna kaupin úr ríkissjóði eða með sértækri skattheimtu.
„Þetta reyndum við líka í covid-19-faraldrinum og í kjölfar hrunsins. Í báðum tilvikum varð þjóðarbúið fyrir meiri háttar efnahagsáföllum. Ófyrirséð röskun á samgönguinnviðum og orkuframleiðslukerfum okkar, að ógleymdum vistkerfisbreytingum, gæti í framtíðinni haft í för með sér alvarleg efnahagsleg áföll,“ segir hann.
Nefnir Sigurður Kári að slíkan sjóð mætti starfrækja til hliðar við NTÍ.
„Hann mætti fjármagna með afrakstri af sameiginlegum náttúruauðlindum okkar, t.d. arðgreiðslum frá Landsvirkjun eða öðrum ábata af nýtingu auðlindanna. Reynslan sýnir að minnsta kosti að til mikils er að vinna fyrir okkur að vera vel undirbúin næst þegar áföll af þeirri stærðargráðu sem við nú upplifum dynja á okkur.“