fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Fréttir

Gagnrýna Livio harðlega – „Hræðilega smekklaust að fagna því að hafa haft yfir 3 milljarða af fólki með frjósemisvanda“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 29. september 2023 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæknifrjóvgunarfyrirtækið Livio Reykjavík fagnaði fyrr í vikunni því að fimmþúsundasta meðferðin þeirra hefði farið eggheimtu þann dag. Í færslunni mátti sjá að áfanganum var fagnað með súkkulaðiköku með kertum á. 

Færslan var síðar tekin út eftir að fjöldi kvenna gagnrýndi færsluna og sagði fyrirtækið sem er það eina sinnar tegundar hér á landi fagna á röngum forsendum, nær væri að fagna lifandi fæddum börnum eftir kostnaðarsamar meðferðir hjá fyrirtækinu. Ekki meðferðum sem hafa kostnað og þjáningar í för með sér fyrir einstaklinga sem eiga þann draum heitastan að eignast barn.

„Væri ekki mun nær að fagna fjölda barna sem hafa orðið til eftir tæknifrjóvganir hjá fyrirtækinu? Árangurinn sem við viljum sjá, eru sem allra flest lifandi fædd börn eftir virkilega kostnaðarsamar meðferðir. En nei – í stað þess að fagna x mörgum börnum í heiminn er verið að fagna því hversu margar milljónir eru komnar í kassann og innkomu fyrirtækisins,“ segir Valborg Rut Geirsdóttir sem fyrst vakti athygli á færslunni.

Bendir hún á að Livio er eina fyrirtækið sem sérhæfir sig í tæknifrjóvgunum á landinu og spyr sig hvað séu mörg lifandi fædd börn eftir þessar 5.000 meðferðir.

„Ég get lofað ykkur því að enginn viðskiptavinur þeirra sem hefur farið í hverja meðferðina á eftir annarri er að fagna fjölda meðferða. Á bak við hvern viðskiptavin og hverja milljón sem er greidd fyrir aðstoð við tæknifrjóvgun er nefnilega fólk. Fólk, sem þráir ekkert meira en að eignast barn. Fyrsta barn, annað barn, þriðja eða jafnvel það fjórða. Því ófrjósemi er alls konar. Þetta eru einstaklingar, sem hafa barist við óteljandi erfiðar tilfinningar. Hafa grátið yfir alltof mörgum neikvæðum þungungarprófum, syrgt það sem ekki varð og farið í gegnum hvert sorgarferlið á eftir öðru. En hafa rifið sig upp og fundið vonina upp á nýtt, neita að gefast upp og halda ótrauð áfram í nýja meðferð með jákvæðni og baráttuvilja að vopni.

Ég verð alltaf jafn svekkt og sár þegar ég fæ það á tilfinninguna að verið sé að fagna óförum annarra á þessu sviði. Og ég játa að mér fannst þessi Instagrampóstur virkilega óviðeigandi og ekki til þess að láta einstaklingum í baráttu við ófrjósemi líða betur,“ skrifar Valborg í færslu á Facebook sem fjöldi einstaklinga, aðallega konur hafa deilt, margar þeirra með eigin reynslu af meðferð hjá Livio.

Gagnrýndi Livio harðlega

Í lok ágúst steig Svava Kristín Grétarsdóttir íþróttafréttakona á Sýn fram með reynslu sína af Livio, en hún gengur með sitt fyrsta barn eftir meðferð hjá fyrirtækinu. Sagði Svava Kristín fyrirtækið meira eins og stofnun en þjónustufyrirtæki og sagði þjónustu fyrirtækisins í samræmi við að engin samkeppni sé hérlendis á þessari þjónustu. 

Svava Kristín Grétarsdóttir

Gagnrýndi hún langa bið, skort á upplýsingum og viðmót starfsfólks í sinn garð.

Sjá einnig: Svava Kristín opnar sig um erfitt ferli að verða ófrísk og gagnrýnir Livio harðlega – „Ég er mjög brotinn einstaklingur með engin svör“

Sjá einnig: Svava Kristín fer betur yfir ferlið og gagnrýnina – „Heyrt svo margar sögur af slæmri upplifun skjólstæðinga Livio“

Livio svarar ekki fyrirspurn blaðamanns eða athugasemdum við færsluna

Rétt er að taka fram að Livio hefur ekki svarað tölvupósti blaðamanns DV frá því í morgun um hvort fyrirtækið vilji eitthvað tjá sig um færslu sína og gagnrýni á hana. 

Sama virðist um svör við athugasemdum sem skrifaðar voru undir færslunni, sem eins og áður sagði, hefur verið eytt.

„Ég commentaði hjá þeim sem og nokkrir aðrir. Færslan er farin – betra að eyða commentum en að takast á við vesen.“

Fleiri sem bera Livio ekki góða sögu

Í athugasemdum við færslu Valborgar má sjá að fleiri bera fyrirtækinu ekki góða söguna.

„Á ekki barn eftir meðferð hjá þeim en hef svo sannarlega borgað fyrir árangurslausar meðferðir, svo ég á eitthvað í þessum 5000 meðferðum. Svo er þetta svo ópersónulegt: “fimmþúsundasta meðferðin fór í eggheimtu”. Í þessa eggheimtu fór kona sem er að leggja mikið á líkamann sinn og mögulega allt spariféð sitt til þess að fá kannski barn, en það líklegra að það verði ekki til barn svona fyrir þá sem eru ekki vel að sér í líkum á að glasa heppnist.“

„Hræðilega smekklaust að fagna því að hafa haft yfir 3 MILLJARÐA af fólki með frjósemisvanda sem leita mörg hver erlendis eftir misheppnaðar tilraunir Livio. Alveg glatað.“

Á meðal þeirra sem deila færslu Valborgar er Embla Guðrúnar Ágústsdóttir talskona hjá Tabú, en hún og eiginkona hennar, Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttur, fóru í gegnum meðferð hjá Livio. 

„Gróðafyrirtækið Livio fagnar því með köku og kertum að þau hafi framkvæmt 5.000 frjósemismeðferðir. Af þessum 5.000 meðferðum eigum við hjónin samtals 14 meðferðir en aðeins 1 barn. Þess ber að geta að hvorug okkar er greind með einhversskonar frjósemisvanda. Við höfum lengi vitað að Livio græðir á misheppnuðum meðferðum en það er eitthvað alveg next level að gæða sér á þeim.“

Segist sem betur fer aðeins hafa þurft að þola eggheimtu einu sinni

Móðir sem eignaðist þrjú börn eftir meðferð hjá Livio segir: „Eggheimta er versti sársauki sem ég hef gengið í gegnum, ég fékk tvöfaldan skammt af morfíni sem dugði ekki til og ég grét allan tímann og reyndi að þrauka.

Sem betur fer þurfti ég bara að ganga í gegnum þetta helvíti einu sinni því úr einni meðferð urðu þrjú fullkomin börn. Ég þekki konur sem hafa þurft margar meðferðir sem skiluðu engu nema vonbrigðum og sumar þeirra enduðu jafnvel með að leita erlendis. Mér finnst því mjög smekklaust hjá Livio að fagna fjölda eggheimta, væri nær að fagna fjölda meðferða sem skiluðu barni. En 5000 eggheimtur hafa allavega skilað þeim um 3 milljörðum í kassann!“

Önnur móðir sem á sex meðferðir að baki segir það hafa gert sig reiða og sára að sjá Livio fagna með þessum hætti. „Við vorum heppin að fá gullmolann okkar í fangið en það þurfti fimm meðferðir til þess og síðan fórum við í eina aðra 2020 sem ekki tókst.

Af þessum sex meðferðum voru gerð tvö alvarleg mistök sem gerði það að verkum að meðferð ttókst ekki og vissum við strax eftir uppsetningu að þær meðferðir tækjust ekki!

Við borguðum samt fullt verð, fengum ekki endurgreitt og gátum ekki leitað annað þar sem þetta er eina fyrirtækið á landinu! Eftir fyrstu mistökin var viðurkennt að mistök voru gerð en fengum ekkert meira en bara „já, okkur þykir það leitt dæmi!“ Eftir mistök númer tvö sem voru gerð 2020 þá fengum við ekki einu sinni viðtal eftir á til að fara yfir þau! Þetta fyrirtæki sýnir hérna ljóslifandi út á hvað það gengur! Færibandavinnu og gróða, og að koma lífi í heiminn sé bara þeirra aukaatriði!“

„Fjórar meðferðir hér hver annarri sársaukafyllri. Mér finnst lágmarks krafa að fyrirtæki allavega þykist vera með manni í liði þegar maður verslar við það,“ segir faðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Vinnuumhverfið er óviðunandi. Álagið er gríðarlegt. Ofan á það getum við gert eitthvað annað við líf okkar og fengið betri laun“

„Vinnuumhverfið er óviðunandi. Álagið er gríðarlegt. Ofan á það getum við gert eitthvað annað við líf okkar og fengið betri laun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rannsókn staðfestir að erfðaefni Ásu var á strigapoka sem eitt líkið fannst í

Rannsókn staðfestir að erfðaefni Ásu var á strigapoka sem eitt líkið fannst í
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mikilvægasta tækið á heimilinu

Mikilvægasta tækið á heimilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Það er svo margt rangt við þessa framkvæmd alla að mig skortir orð til að lýsa hvað ég er gáttuð“

„Það er svo margt rangt við þessa framkvæmd alla að mig skortir orð til að lýsa hvað ég er gáttuð“