Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt unga konu í fjögurra mánaða fangelsi fyrir ítrekuð umferða- og hegningarlagabrot. Þrír mánuðir af dóminum eru skilorðsbundnir til tveggja ára en að auki er konan svipt ökurétti í þrjú ár.
Auk aksturs undir áhrifum vímuefna er konan sakfelld fyrir þjófnað og fjársvik. Stal hún meðal annars 20 þúsund króna snjallúri af heimili nokkru í maí 2021.
Það eru þó fjársvikin af sölusíðum samfélagsmiðla sem eru umfangsmest en viðkomandi er dæmd fyrir að hafa í þrígang blekkt seljendur með því segjast ætla að kaupa tiltekna vöru af þeim, mæla sér mót við seljendurna, framvísa svo skjáskoti úr heimabanka þar sem svo virðist sem greiðslan hafi verið innt af hendi inn á tiltekinn reikning og þannig fengið vöruna afhenta. Um blekkingar var að ræða því greiðslan var aldrei innt af hendi.
Þannig hafði fjársvikarinn 180 þúsund króna Iphone-síma af ótilgreindum einstaklingi, 155 þúsund króna Gucci-veski af öðrum og 12 þúsund króna tösku af enn öðrum söluaðila.
Þeir sem fylgjast vel með þessum sölusíðum hafa eflaust rekið augun í að ítrekað hafa komið upp sambærileg mál þar sem viðkomandi er sökuð um slík fjársvik en viðvaranirnar virðast þó duga lítið. Til að mynda var hún sökuð um að hafa svikið 350 þúsund króna af einum seljenda fyrir ekki svo löngu.
„Hún þóttist vera millifæra fyrir framan mig og sýndi mér kvittunina frá bankanum en enginn millifærsla var komin. Ég gerði þau mistök að leyfa henni að fara þar sem millifærslur geta verið lengi að koma í gegn. Það næst ekki í hana,svara engum skilaboðum og skellir á mig þegar ég reyni að hringja,“ sagði eitt fórnarlambið um viðskipti sín við þá dæmdu í einum af hinum fjölmörgu þráðum þar sem fjallað er um svik hennar.
Sú dæmda hefur átt erfitt líf en segja má að hún hafi vakið þjóðarathygli fyrir rúmum áratug þegar hún var sífellt að strjúka að heiman og ítrekað var lýst eftir henni af lögreglu.