Kona, tæplega 33 ára gömul, var þann 18. september sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir eignaspjöll og kynferðisbrot.
Hún var annars vegar ákærð fyrir að hafa þann 3. febrúar árið 2021 stungið með hnífi í afturdekk bíls og því næst ekið öðrum bíl á bílinn, allt með þeim afleiðingum að afturdekkin eyðilögðust og bíllinn dældaðist.
Hin vegar var hún ákærð fyrir að hafa tveimur dögum síðar sent þrjú kynferðisleg myndskeið af karlmanni án hans samþykkis til þáverandi kærustu hans, í gegnum forritið Messenger.
Líklegt er að brotin tvö tengist en það kemur ekki fram með skýrum hætti í texta dómsins.
Konan játaði brot sín skýlaust og sýndi iðrun. Það var virt henni til refsilækkunar, en hún var dæmd í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða manninum 200 þúsund krónur í miskabætur.