fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Helena leitaði ítrekað læknisaðstoðar vegna verkja og var sett á kvíðalyf -Greindist svo á bráðadeild með ólæknandi krabbamein

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 14. mars 2023 14:49

Helena Gylfadóttir Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helena Gylfadóttir,  53 ára gömul, hefur lokið geislameðferð og er nú í lyfjameðferð vegna 4. stigs krabbameins. Krabbameins sem hefði uppgötvast mun fyrr ef að læknar hefðu brugðist við umkvörtunum hennar í á annað ár.

Í færslu sem Helena birti á Facebook í gær og hún gaf DV góðfúslegt leyfi til að birta segir hún frá aðdraganda þess að hún var greind með meinvörp í hrygg auk samfallsbrots í einum hryggjarlið. DV óskaði eftir viðtali við Helenu, en hún baðst undan því vegna heilsu sinnar. Í færslunni gagrýnir Helena að hún hafi ekki verið skoðuð fyrr og send í rannsóknir og læknar hafi aðeins talið að um fylgikvilla breytingarskeiðsins væri að ræða.

„Hefði mátt vera eitthvað saklausara í bakinu en það” eru orðin sem heimilislæknir Helenu lét falla þegar hún sagði honum að ástæða bakverkjanna sem hún hafði kvartað undan í á annað ár hefði reynst vera meinvörp í hryggnum auk samfallsbrots í einum hryggjarlið.

„Meinvörpin fundust hins vegar ekki með hjálp hans, né þeirra lækna sem ég hafði leitað til fram til þess. Þau fundust þegar bakið var orðið svo kvalið að ég gat bókstaflega ekki hreyft mig og eina leiðin sem var fær var sú að hringja á sjúkrabíl. Ég var flutt með sjúkrabíl þann 7.janúar síðastliðinn á bráðamóttökuna í Fossvogi þar sem myndgreining leiddi greinilega í ljós hvað var að. Hófst þá leitin að upprunanum sem tók sinn tíma en að lokum kom í ljós að uppruni var í brjóstum og mér var tjáð að krabbameinið væri á svokölluðu 4.stigi. Ólæknandi kalla þeir það á þessu stigi og veröldin hrundi yfir mig og fólkið mitt með öllu sínu afli.”

Mynd: Facebook

Rússíbaninn  hrikalegur

Helena segir tilfinningarnar vera óteljandi og rússíbaninn sem fylgi slíkum tíðindum sé hrikalegur. Hræðsla og sorg sé mikil en þó líka mikil reiði, reiði sem enn ólgar í henni af því þetta þurfti ekki að fara svona.

„Þetta hefði átt að uppgötvast fyrr. Ég er nefnilega búin að leita mér hjálpar, af því mig verkjaði svo mikið, af því orkan var lítil sem engin, af því ég fékk bjúg við áreynslu. En svörin og hjálpin sem ég fékk gerðu lítið gagn. Ég var úrskurðuð kvíðafull miðaldra kona á breytingaskeiði með vefjagigt,” segir Helena.

Engin mynd var tekin af baki hennar síðastliðið ár þrátt fyrir kvartanir. Hún fékk kvíðalyf og svefnlyf og var sagt að vera dugleg að hreyfa sig. „Ég sem hafði í mörg ár stundað mjög mikla útivist og hreyfingu, búin að hlaupa hálfmaraþon, erfið fjallahlaup bæði hér heima og erlendis, átti að hreyfa mig og þá myndi allt lagast. Ég var sett á hormón til að hægja á breytingaskeiðinu, hormón sem hjálpuðu að fæða hormónanæma brjóstakrabbameinið sem leyndist með mér þó að ég hefði samviskusamlega farið í mínar brjóstamyndatökur.”

Sjá einnig: „Þetta eru auðvitað algjörar sorgarsögur þegar við heyrum þær. Þær eru of margar“

Óvinnufær í lok árs vegna verkja

Í desember 2022 fékk Helena votttorð þar sem hún var orðin óvinnufær, vottorðið fékk hún án athugunar. Í byrjun janúar sendi hún póst á heilsuveru.is á lækninn sinn þar sem hún lýsti kvölum í baki og maga, að hún gæti ekki unnið né sofið vegna verkja, gæti ekki staðið né lyft hlutum.

„Ég grátbið um hjálp. Svarið var að þetta væru verkir frá stoðkerfi. Engin hjálp, ekkert gert. Ég var aðframkomin á þessum tímapunkti af kvölum. Aðframkomin og ráðalaus. Hugsanirnar sem sóttu á mig voru alls konar. Er ég bara ekki nógu sterk? Er ég bara að ímynda mér þetta? Er ég bara kvíðafull miðaldra kona á breytingaskeiði líkt og læknarnir virðast hafa ákveðið fyrirfram?” segir Helena og segist hafa reynt að vinna, þar sem kannski væri þetta rétt hjá lækninum. Segir hún andleg þyngsli sem fylgja slíkum efasemdum um eigin upplifun vera mikil.

Helena segist hafa stigið óteljandi hindranir áður og hún ætli að stíga þessa hindrun sem krabbameinið er einnig ásamt fólkinu sínu og því heilbrigðisstarfsfólki sem hún hefur kynnst undanfarnar vikur. „En tilfinningarnar sem bærast með manni í þessu öllu eru líka von og bjartsýni því sem betur fer þá eru framfarir í læknavísindum slíkar að ný lyf gefa okkur sterka von og ég veit nú að möguleikinn á að ráða við þetta og stöðva framgöngu sjúkdómsins er raunverulegur, ég veit að ég hef yfirstigið óteljandi hindranir áður og ég ætla að yfirstíga þessa með fólkinu mínu og öllu því dásamlega fólki í heilbrigðiskerfinu sem ég hef kynnst undanfarnar vikur sem vinnur með mér af alúð og krafti í að vinna þessa baráttu.“

Mynd: Facebook

Glímir við vanlíðan nær alla daga

Helena er búin með eina umferð í geislameðferð og er nú í lyfjameðferð. Hún segir aukaverkanir miklar og glímir hún við vanlíðan nær alla daga. Orkan lítil þar sem matarlystin er af skornum skammti.

„Meðan ég vinn í að umbera hvern dag með sinni vanlíðan og verkjum þá hljóma orð læknisins í hausnum á mér „verkir frá stoðkerfi“, „vefjagigt“ „vertu dugleg að hreyfa þig“ og „það hefði mátt vera eitthvað saklausara en það“. En það er einmitt eitt sem er víst í þessu og það er að þetta hefði vissulega mátt vera eitthvað saklausara, það þurfti ekkert að taka það fram sérstaklega.

En inni í hverjum degi þá er líka vonin sterk og þakklætið fyrir allt það sem gott er í mínu lífi og við minnum okkur á það eins og við getum að lífið er núna. Kæru læknar, munið að miðaldra konur á breytingaskeiði veikjast líka af alls konar sjúkdómum. Ég bið, leggið við hlustir.“

Sjá einnig: Helena greindist með ólæknandi krabbamein eftir að heimilislæknir hunsaði kvartanir hennar – „Reiði er ótrúlega vond tilfinning sem skemmir svo mikið“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“