fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Innflæði kviku hefur stöðvast og líkur á gosi hafa minnkað

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 6. desember 2023 15:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkur á gosi yfir kvikuganginum sem liggur í gegnum Grindavík hafa minnkað til muna en hætta er áfram á umbrotasvæðinu.

Nýjustu gögn benda til þess að innflæði kviku inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember hafi stöðvast. Hins vegar heldur kvikusöfnun undir Svartsengi áfram.

Í nýrri tilkynningu Veðurstofunnar segir:

„Nýjustu gögn benda til að innflæði inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember hafi líklega stöðvast. Líkur á eldgosi yfir kvikuganginum í þessari lotu atburðanna á Reykjanesskaga hafa því minnkað verulega. Kvikusöfnun heldur hins vegar áfram undir Svartsengi.

Þessari umbrotahrinu við Svartsengi sem hófst í október er því ekki lokið, en segja má að nýr kafli sé að hefjast með auknum líkum á nýju kvikuhlaupi.

Eins og áður hefur komið fram þá myndaðist kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík þegar kvika hljóp úr kvikuinnskotinu við Svartsengi. Líklegt er að sú atburðarrás endurtaki sig. Þegar horft er almennt til umbrotahrina með endurteknum kvikuhlaupum, þá má þó reikna með að næsta kvikuhlaup frá Svartsengi verði minna að umfangi en það sem varð 10. nóvember. Hætta getur þó myndast á umbrotasvæðinu í tengslum við næsta kvikuhlaup. Reikna þarf með að kvikuhlaup geti staðið yfir í nokkrar klukkustundir eða daga með aukinni hættu vegna skjálftavirkni og aflögunar á því tímabili.

Upphafsmerki nýs kvikuhlaups eru skyndileg aukning í skjálftavirkni og skörp breyting í aflögun. Þau merki koma til með að sjást á mælitækjum nokkrum klukkustundum áður en kvikuhlaupið er líklegt til að skapa hættu í  Svartsengi eða Grindavík. Ef til kvikuhlaups kemur gerir Veðurstofan almannavörnum strax viðvart sem virkja um leið sínar viðbragðsáætlanir. Komi til kvikuhlaups eykst aftur hættan á eldgosi. Eins og kemur fram hér að ofan er líklegast að kvika hlaupi aftur frá Svartsengi og yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gegnum Sundhnjúksgíga 10. nóvember og því er það líklegasti upptakastaður eldgoss.

Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgist grannt með merkjum um mögulegt kvikuhlaup sem og öðrum breytingum sem gætu valdið frekari hættu á umbrotasvæðinu við Svartsengi og í og við Grindavík.“

Veðurstofan segir hliðstæðu vera milli umbrotanna við Svartsengi og Kröfluelda. Sjá nánar á vef Veðurstofunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt