Rúmenskur karlmaður, sem lést í eldsvoða í húsnæði við Stangarhyl 3 í síðustu viku, var kominn heilu og höldnu út úr húsinu en hljóp aftur inn í eldhafið til að leita að vini sínum. Þaðan átti maðurinn, sem var á fertugsaldri, ekki afturkvæmt. Það sorglega við atburðarásina var að vinurinn var þegar kominn út úr húsinu. Þetta kemur fram í umfjöllum Heimildarinnar um slysið í morgun en Örvar Rafnsson, talsmaður Alva Capital, eiganda hússins staðfestir frásögnina.
Þar kemur fram að fjárfestingafélagið hafi keypt húsið árið 2022, og innréttað það sem 12 stúdíó íbúðir, 25 einstaklingsherbergi með sameiginlegu eldhúsi og einni stærri 135 fermetra fimm herbergja íbúð sem eldurinn kviknaði í.
Fullyrðir Örvar að fyrirtækið hafi sinnt eldvörnum vel og farið í einu og öllu eftir athugasemdum sem gerðar voru af slökkviliðinu í úttekt sem var gerð skömmu eftir að fyrirtækið tók við húsnæðinu. Þá hafi brunaviðvörunarkerfi húsnæðisins verið tekin út af Öryggismiðstöðinni þann 25. október síðastliðinn og kerfið sagt virka vel.
Eigandi og forstjóri Alva Capital er Skorri Rafn Rafnsson sem vakti athygli sem frumkvöðull í smálánastarfsemi á Íslandi sem og rekstri innheimtufyrirtækja ásamt öðrum fjárfestingum.
Þetta er að minnsta kosti þriðji stóri bruninn sem upp kemur á undanförnum mánuðum í húsnæði sem nýtt var til búsetu en ekki byggt sem slíkt. Í sumar kom upp eldur í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði sem nýtt var til búsetu og komust sumir íbúar naumlega undan eldinum.
Í síðasta mánuði lést síðan maður í bruna í húsnæði við Funahöfða í Reykjavík sem búið var í en var ekki hugsað til búsetu.