Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun hefur í dag 5. desember afhent neyðarskýlum Reykjavíkurborgar að Lindargötu og Granda, ásamt úrræði Reykjavíkurborgar á Njálsgötu, nýjar dýnur. Guðmundur Ingi, formaður Afstöðu afhenti Heiðu Björg Hilmisdóttur, formanni Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dýnurnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Um er að ræða 50 sérhannaðar dýnur, af tegund sem meðal annars eru notaðar á sjúkrahúsum. Dýnurnar eru því sérlega vel fallnar til notkunar á fyrrnefndum stöðum, þar sem skjólstæðingar Reykjavíkurborgar gista. Afstaða sinnir mörgum einstaklingum sem glíma við heimilisleysi, vímuefnaraskanir og önnur félagsleg vandamál og er alltaf einhver hluti þeirra í úrræðum Reykjavíkurborgar.
„Það er með mikilli ánægju og hlýhug sem Afstaða afhendir Reykjavíkurborg dýnurnar, nú þegar kuldinn og myrkrið er sem mest – en líka þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð. Sérstakar þakkir fyrir aðstoðina fær Landspítalinn og Sigurður Reynisson (SÖR), en án þeirra hefði þetta ekki orðið að veruleika,“ segir Guðmundur Ingi.